Guðrún Hafsteinsdóttir oddviti sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi gerði flugsamgöngur við Vestmannaeyjar að umtalsefni í ræðu sinni á Alþingi í gær. Ræðuna má sjá hér að neðan:

Herra forseti. Ég vil nota hér tækifærið til að ávarpa þingheim og minna á þá erfiðu og snúnu stöðu sem Vestmannaeyingar búa við varðandi samgöngur. Vestmannaeyjar eru eina sveitarfélag landsins sem hefur enga tengingu við meginlandið og þarf því að reiða sig á samgöngur á sjó og lofti. Nú er staðan þannig að ekkert áætlunarflug er til Vestmannaeyja og svo hefur verið frá því í lok ágúst á þessu ári. Fram til loka ágúst á síðasta ári sinnti flugfélagið Ernir flugi til Vestmannaeyja á markaðslegum forsendum, en vegna fækkunar ferðamanna, m.a. vegna Covid, brustu þær forsendur. Icelandair hóf aftur flug í desember á síðasta ári með ríkisstuðningi til að byrja með, en eins og áður sagði hætti félagið sömuleiðis flugi í lok ágúst. Er þetta sérstaklega erfið staða fyrir íbúa Vestmannaeyja nú þar sem ferðir falla oft niður í Landeyjahöfn yfir vetrartímann og öryggi íbúa því minna. Það er óþolandi staða. Bitnar þetta ástand sérstaklega illa á viðkvæmum hópum; öldruðum, sjúklingum og börnum. Vestmannaeyingar eru ekki að biðja um mörg flug á dag. Íbúar fara fram á að fá tvo til þrjá daga í viku þar sem boðið yrði upp á tvö flug á dag. Í ár eru 75 ár frá því að flug hófst til Eyja. Það skýtur því skökku við að árið 2021 skuli samgöngur til Eyja enn vera skertar og manni verður ósjálfrátt hugsað til framsýni fólks fyrir 75 árum. Hvað myndi þetta fólk segja nú?

Ég skora á hæstv. ráðherra samgöngumála að ganga rösklega til verks og tryggja íbúum Vestmannaeyja öryggi í samgöngum hið fyrsta. Það er ekki hægt að láta íbúa Vestmannaeyja búa við óöryggi sem þetta.

Hægt er að horfa á umræðurnar hér.