Kór Landakirkju heldur jólatónleika sína að kvöldi miðvikudagsins 15. desember og hefjast þeir kl. 20:00. Löng hefð er fyrir tónleikunum og í hugum margra skipa þeir stóran sess á aðventunni. Tónleikarnir fóru ekki fram í fyrra og því má segja að undirbúningur hafi staðið yfir á annað ár. Dagskráin verður að vanda sneisafull af hátíðlegum og hrífandi jólalögum líkt og undanfarin ár.

Tónleikarnir eru tvískiptir rétt eins og hefð er fyrir en dagskráin hefst í sal safnaðarheimilis Landakirkju og líkur svo uppi í Landakirkju. Einar Clausen syngur einsöng með kórnum sem er dyggilega stýrt af Kitty Kovács organista Landakirkju. Aðrir undirleikarar eru Balázs Stankowsky, fiðla, Einar Hallgrímur Jakobsson, trompet, Jóhanna Svava Darradóttir, þverflauta. Miðaverði hefur verið stillt í hóf en það er litlar kr. 3.000 fyrir þessa tónlistarveislu á aðventu.

Athugið að grímuskylda er á tónleikunum og framvísa þarf Covid-19 hraðprófi sem ekki er eldra en 48 klst gamalt. Hægt er að bóka hraðpróf á Heilsuvera.is og fara hraðpróf fram á heilsugæslu HSU í Vestmannaeyjum.