Bergey VE kom til hafnar í Vestmannaeyjum á mánudags morgunn með fullfermi eftir stutta veiðiferð. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra og spurði fyrst hvar veitt hefði verið. „Við byrjuðum á Péturseynni og enduðum á Vík. Það var hvöss landátt en þarna gátum við verið í dálitlu skjóli. Það gekk afar vel að fiska og við fylltum skipið á einum og hálfum sólarhring. Þarna fékkst stór þorskur – vertíðarfiskur. Þetta var mest 7-12 kílóa fiskur. Nú spáir hann haugabrælu næstu daga og því gerum við ekki ráð fyrir að halda til veiða á ný fyrr en á fimmtudag. Menn munu nota tímann fram að því til að dytta að skipinu,“ segir Jón.