Trausti Hjaltason

Ef við berum saman Vestmannaeyjar árið 2008 og 2021 þá erum við í mun betri stöðu til að fá til okkar barnafjölskyldur en áður. Hér er næga atvinnu að hafa, ný tækni hefur skapað landsbyggðinni ný tækifæri til sóknar varðandi fjarvinnu og fjarfundi. Þetta breytir stöðu landsbyggðarinnar.

Sparað 200.000 kr. á mánuði

Hér getum við boðið fríar lóðir, húsakostur er ódýrari og afborganir geta verið um 200.000 kr. minni á mánuði fyrir húsnæðislán af einbýlishúsi í Eyjum miðað við í Reykjavík. Það er því enn betri hugmynd að flytja til Eyja en áður. Meiri tími með fjölskyldunni og aukið fjármagn sem situr eftir um hver mánaðarmót.

Jóla Fylkir 2021
Fjölbraut við Ármúla

Íbúum fækkaði frá 1991 til 2008

Eftir að hafa náð 4933 íbúum með lögheimili í Vestmannaeyjum 1. janúar 1991, sem er það mesta eftir gos (1971 var 5231 íbúi), fækkaði íbúum Eyjanna jafnt og þétt alveg til ársins 2008 og voru þá 4055.

Íbúum fjölgað frá 2008 til 2021

Síðan þá hefur þróunin snúist við og íbúum smá saman fjölgað og í október 2021 voru 4.408 íbúar skráðir með lögheimili í Vestmannaeyjum. Vonandi náum við jafnmiklum vexti og önnur sveitarfélög á Suðurlandi líkt og Ölfus, Árborg og Hveragerði sem eru í miklum vexti þessa dagana. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Meðfylgjandi er tafla sem sýnir fjölda íbúa í einstaka sveitarfélögum á Suðurlandi frá árinu 2018 til 1.jan 2021.

Heimild: Þjóðskrá www.skra.is

Munurinn á Vestmannaeyjum 2008 og 2021

Til gamans eru hér nokkrir punktar um samfélagið okkar. Þetta er alls ekki tæmandi listi og fyrst og fremst sett fram til gamans.

Vestmannaeyjar 2008

 • Herjólfur sigldi 2 ferðir á dag í Þorlákshöfn
 • Fáir höfðu tækifæri til að vinna fjarvinnu
 • Börn komast inn á leikskóla við 24 mánaða aldur
 • Ekki Sea Life og Eldheimar
 • Ekki Herjólfshöll og trambolínrennibraut í sundlauginni
 • Engin frístundastyrkur
 • Makrílveiðar að hefjast
 • Fyrirtæki eins og Marhólmar, Langa, Hótel Vestmannaeyjar, Iðunn Seafood, Rib Safari, Leo Seafood, Einsi Kaldi og Póley óstofnuð eða að slíta barnskónum.
 • Íbúar 4055

Vestmannaeyjar 2021

 • Herjólfur siglir 6-7 ferðir á dag í Landeyjahöfn
 • Mikil tækifæri til fjarvinnu og fjarnáms
 • Ljósleiðaratengingar að koma í öll hús
 • Börn komast inn á leikskóla við 12 mánaða aldur
 • Frístundastyrkur fyrir öll börn
 • Aukið iðnnám í boði í Framhaldsskólanum
 • Nýtt útisvæði í sundlauginni
 • Ný aðstaða fyrir eldri borgara
 • Nýjar þjónustuíbúðir fyrir fatlaða
 • Herjólfshöllin
 • Tugir veitingastaða í boði
 • Hopp, Bíó, fjórhjól, bátsferðir og önnur afþreying aukist til muna.
 • Íbúar 4.408

Það er of freistandi að horfa ekki aðeins inn í framtíðina, þó að óráðin sé, þá er hollt að velta henni fyrir sér annað slagið. Náttúrufegurð og nálægðin við sjóinn verður sífellt dýrmætari og metin betur að verðleikum í sífellt hraðari heimi, þar sem fólk sækist meira í nálægð við náttúruna með tilkomu aukinnar tækni og valfrelsis við búsetu.

Framtíðin

Samgöngur

 • Herjólfur siglir allan sólarhringinn og önnur ferja á móti.
 • Flug til Eyja 3x á dag alla daga.

Heilbrigðismál

 • Heilsugæslan og sjúkrahúsið okkar hefur verið eflt með sértækri deild þar sem boðið er uppá skurðaðgerðir og eftirmeðferð, léttir á biðlistum á Landsspítalanum og styrkir þjónustuna í Eyjum. Sjúkraþjálfun og meðferðir fyrir sálina sækja í sig veðrið hjá fólki sem hefur yfirkeyrt sig í vinnu og álagi, Eyjarnar eru kjörnar fyrir slíka þjónustu. Sjúkraþyrla með bráðaþjónustu staðsett í Vestmannaeyjum.

Menntun og fjölskyldan

 • Framhaldsskólinn og háskólanám hefur verið eflt í Eyjum með tilkomu háhraðatenginga og með betri tækni er hægt að stunda nám lengur í Eyjum.
 • Leik- og grunnskólar halda áfram að dafna og áhersla á lestur, stærðfræði ásamt skapandi greinum skilar sér í bestu skólum landsins.
 • Malarvöllurinn hefur byggst upp sem íbúðabyggð og ungt fólk hefur valið sér búsetu í Eyjum í auknum mæli.
 • Hundruðir einstaklinga með framhaldsmenntun starfa við störf án staðsetningar og búa með fjölskyldum sínum í Eyjum.
 • Íþróttaaðstaða hefur vaxið áfram og er ein sú besta í heiminum.

Atvinnulífið og nýsköpun

 • Sjávarútvegurinn hefur gengið í gegnum fjórðu iðnbyltinguna og fær næga græna orku til að keyra starfsemi sína. Líftækni, fullvinnsla, fiskeldi og markaðir hafa verið efldir til að skapa tekjur til að fjárfesta til framtíðar.
 • Nýsköpun blómstrar í Eyjum, ný fyrirtæki sækja í sig veðrið. Vindorka, straumarnir í sjónum og fleira. Nálægðin við gæðahráefni úr sjó kemur sér vel fyrir ný fyrirtæki.

Veldu Vestmannaeyjar

Eyjarnar skora hátt í þessum flokkum

Þegar betur er að gáð sést að við höfum sem samfélag vaxið jafnt og þétt síðan árið 2008. Nú er hins vegar tækifæri fyrir nýtt vaxtarskeið. Til þess að svo verði verðum við að ná unga fólkinu til okkar sem byggir ofan á það sem við höfum. Ungt fólk í dag er í þeirri einstöku stöðu að getað valið sér búsetu eftir kröfum til lífsgæða. Áður var atvinna krafa númer eitt og svo kom annað. Nú eru þættir eins og: þjónusta, menning, gæði menntunar, nálægð við náttúru, samgöngur, tími með fjölskyldu og húsnæði að vega hærra en áður. Eyjarnar eru að skora hátt í þessum flokkum og við þurfum að notfæra okkur þá stöðu. Veldu Vestmannaeyjar.

Trausti Hjaltason

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.