Flaggað á gosdeginum 23. janúar

Á morgun, þann 23. janúar 2022, eru liðin 49 ár frá upphafi Heimaeyjargossins. Við það tilefni hefur skapast sú hefð að flagga gosfána Vestmannaeyja sem jafnan prýðir bæinn þegar Eyjamenn minnast atburðanna. Fánann skal nýta við þau tilefni er tengjast gosinu. Fáninn sækir tákn sín og liti í arburðarrás gossins.

Hann skartar svokölluðum goslitunum fjórum; svartur, rauður, appelsínugulur og gulur. Litirnir hafa þó tvöfalda merkingu, eins og í raun fáninn sjálfur. Við upphafi goss, eða á meðan því stendur frá 23. janúar að goslokum, á fáninn að snúa með svarta flötinn upp. Þá standa gosstrókarnir þrír upp í loft og lýsa upp dimma vetrarnóttina. Við goslok ætti fáninn svo að snúa með svarta flötinn niður. Þá sjást hraunhólarnir og vikurinn sem eftir sat í forgrunni en á himni er sumarroði og hækkandi sól, tákn um bjartari tíma.

Ef veður leyfir er tækifæri til þess að draga samstöðuták þetta að húni.

Litirnir í gosfánanum hafa tvöfalda merkingu