Staðan í Landeyjahöfn var til umræðu á fundi bæjarstjórnar í vikunni sem leið. Bæjarstjóri greindi frá stöðunni í Landeyjahöfn. Dýpið er ekki nægjanlegt til þess að hægt sé að sigla Herjólfi milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Jafnframt hefur veðrið gert það að verkum að ekki er hægt að dýpka svo að hægt sé að opna höfnina. Umhverfisdýpið er nægt samkvæmt þeim mælingum sem gerðar hafa verið. Bæjarstjóri hefur verið í reglulegu sambandi við fulltrúa Vegagerðarinnar vegna stöðunnar í Landeyjahöfn. Haldinn var fundur þann 24. janúar sl., með Bergþóru Þorkelsdóttur, vegamálastjóra, og fulltrúum hjá Vegagerðinni. Á þeim fundi lýsti bæjarstjóri Vestmannaeyja miklum áhyggjum af tæknilegri getu dýpkunarskips Björgunar, eins og margoft hefur verið gert áður. Taka þarf um 9.000 rúmmetra úr hafnarminninu núna. Nauðsynlegt er að krafa um aukna tæknilega getu verði gerð í útboði sem verið er að undirbúa hjá Vegagerðinni. Fulltrúar Vegagerðarinnar taka undir áhyggjur af tæknilegri getu og að mikilvægt sé að gera auknar kröfur í útboðinu. Það er lykilatriði að höfnin lokist ekki og ef það gerist að þá taki skamman tíma að opna hana aftur. Fram kom að Vegagerðin leiti allra leiða til að opna höfnina, m.a. með því að leita að skipi erlendis, sem getur komið með litlum fyrirvara. Jafnframt var rætt um stöðuna á úttekt á höfninni og að ljúka þyrfti henni sem fyrst. Bæjarstjóri fór í framhaldi yfir mikilvægi þess að grunnrannsóknum á jarðgöngum til Eyja verði lokið sem fyrst.

Í Sameiginleg bókun bæjarstjórnar um málið kemur fram að ótraustar siglingar til Landeyjahafnar undanfarnar vikur hafa haft slæm áhrif á samfélagið í Vestmannaeyjum bæði á íbúa og fyrirtæki. Mikilvægt er að Vegagerðin bregðist við til að hægt verði að opna höfnina sem allra fyrst. Þá ítrekar bæjarstjórn mikilvægi þess að við útboð á dýpkun hafnarinnar verði gerð rík krafa um tæknilega getu við dýpkun. Úttekt á höfninni þarf að ljúka eins fljótt og auðið er til að treysta sjósamgöngur við Vestmannaeyjar.