Flugið
Á kjörtímabilinu lagðist flug af og er í dag skugginn af því sem áður var, eitthvað sem sjá hefði mátt fyrir en fékk að gerast með lítilli viðspyrnu. Nú mörgum mánuðum síðar sitjum við uppi með 1 ferð á dag 2-3 daga í viku sem er mikil afturför og þjónar því miður fáum. Eftir sitja íbúar með sárt ennið. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa verið alveg skýrir á því allan tímann að flug verður að vera til staðar alla daga að lágmarki 2x á dag. Strax fundum við samt að meirihlutinn sem fer með ferðina taldi slíkt ekki raunhæfa kröfu og gaf afslátt og lét ríkisvaldið finna að það var í boði að gefa afslátt af þessu. Því fór sem fór. Það sem hefur áþreifanlega breyst á kjörtímabilinu er viðhorf meirihlutans gagnvart baráttunni við ríkisvaldið, hún er mun tempraðri og yfirlýst stefna að það á ekki “að láta heyra í sér”. Þessi stefna er að okkar mati að skaða samfélagið okkar.

Herjólfur
Hvað Herjólf varðar er tilfinningin svipuð þ.e. það á ekki að “taka neina slagi” eða láta heyra í sér, enda hefur staðan í Landeyjahöfn ekkert breyst á 4 árum. Höfnin er eins, sama illa búna skipið að dýpka og engin plön. Áætlanir sem voru uppi um fastan dýpkunarbúnað í landi voru slegin af strax í byrjun kjörtímabils og Belgarnir sendir heim. Það sem þarf strax er að fá almennilegt dýpkunarskip til að koma hérna í eitt skipti, dýpka og opna Landeyjahöfn en í kjölfarið þarf að finna varanlegri lausn á vandamálinu. En nei það á að vinna þetta allt á rólegu nótunum. Ekki má gleyma svokallaðri vetraráætlun Herjólfs sem var tekin upp þar sem bæjarbúum á að duga 6 ferðir til Landeyjahafnar þegar þær voru 7 á dag snemma á kjörtímabilinu. Hér hefur því orðið áþreifanleg breyting þegar kemur að baráttu fyrir okkar samgöngum.

Stjórn Herjólfs
Það lá mikið á hjá H- og E- listanum að gera stjórn Herjólfs pólitíska og koma “sínu fólki” að eftir kosningar í miklu upphlaupi þegar boðað var til hluthafafundar í skjóli myrkurs. Skyndilega voru stjórnarmenn sem höfðu barist fyrir okkar hagsmunum við yfirtöku rekstursins orðnir að vondu köllunum og Grímur Gíslason og Lúðvík Bergvinsson fengu að víkja út af þessum “nauðsynlegu” hræringum í boði nýja meirihlutans.  E- listinn rann skyndilega inn í H-listann og henti Lúðvíki frá borði sem hafði staðið sig, líkt og Grímur með eindæmum vel í hagsmunabaráttu við ríkið. En nú tæpum 4 árum síðar er stjórnin að sögn meirihlutans bara alls ekki pólitísk og fullkomin þöggun virðist ríkja af hálfu meirihlutans um alvarleg málefni félagsins og firring ábyrgðar algjör. Tilfinningin er stundum sú að meirihlutinn hafi hag af því að láta hlutina líta illa út og að verkefnið sé einfaldlega ekki eitthvað sem þau vilji hafa til staðar. Það var jú keppikefli þeirra fyrir síðustu kosningar að Eimskip fengi reksturinn en ekki Vestmannaeyjabær.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Helga Kristín Kolbeins
Trausti Hjaltason