Icelandic Land Farmed Salmon, landgræðslan og Vestmannaeyjabær hafa unnið að samkomulagi varðandi landgræðslu á Heimaey með laxamykju. Samkomulagsdrög voru lögð fram til kynningar á fundi Umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja á mánudag.

Icelandic Land Farmed Salmon ehf. vinnur að undirbúningi á landeldi á laxi í Vestmannaeyjum. Gert er ráð fyrir að seiðaframleiðsla og matfiskaeldi muni fara fram í Vestmannaeyjum. Félagið hefur sótt um leyfi fyrir 10 þús. tonna framleiðslu á laxi. Í fyrri áfangi verkefnisins, sem nú er unnið að, er gert ráð fyrir að framleiða 5 þús. tonn af laxi. Stefnt er á að um mitt ár 2023 muni framleiðsla á laxaseiðum hefjast. Frá og með þeim tíma má búast við að til muni falla lífræn laxamykja (úrgangur frá fiskum og fóðurleifar) frá framleiðslunni. Hægt og bítandi mun magnið aukast þangað til framleiðsla í matfiskastöð er komin í fulla starfsemi. Mykjan er rík af næringarefnum og hentar vel til að ná upp gróðurþekju á erfiðum svæðum. Vinnsluferlar mykjunnar eru þekktir og góð reynsla hefur verið af áþekku hráefni til landgræðslu á Íslandi, sem á uppruna sinn úr fiski. Ekki er talin mikil áhætta af verkefninu og góður árangur líklegur. Þróun aðferða við mykjuframleiðslu og -dreifingu mun verða þróuð og aðlöguð að aðstæðum á Heimaey, í sátt og samlyndi við samfélagið í Eyjum.
220106. Samkomulag um landgræðslu á Heimaey með laxamykju VE Lgr.pdf