Ísfisktogararnir Gullver NS og Bergey VE lönduðu í byrjun vikunnar og Bergey mun landa á ný í dag. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Steinþór Hálfdanarson, skipstjóra á Gullver, og Ragnar Waage Pálmason, stýrimann á Bergey. Steinþór sagði að afli hefði verið þokkalegur í veiðiferðinni en veðrið leiðinlegt. „Við lönduðum 105 tonnum í heimahöfn á Seyðisfirði á mánudag. Um 60 tonn var þorskur og rúmlega 30 tonn ufsi. Síðan var dálítið af karfa og ýsu. Aflann fengum við í Lónsdýpinu, við Örvæntingu og í Hvalbakshalli. Þá var einnig farið austur á Fót. Það var leiðinlegt veður í túrnum. Við héldum síðan aftur til veiða síðdegis á þriðjudag. Núna erum við í Lónsdýpinu að eltast við ufsa. Ufsinn er latur yfir daginn og skárra að ná honum á nóttunni. Aldrei þessu vant er fínt veður núna og vonandi fáum við blíðu í einn eða tvo daga. Það yrði mikil veisla. Ég reikna með að við löndum á ný á mánudaginn,“ segir Steinþór.

Ragnar greindi frá því að Bergey hefði landað í Neskaupstað sl. þriðjudag. „Aflinn var rúmlega 60 tonn, mest ýsa og þorskur ásamt um 25 tonnum af skarkola sem fékkst í Sláturhúsinu. Við veiddum víða í túrnum; í Hvalbakshalli, á Tangaflaki, á Glettinganesflaki og á Gula teppinu auk Sláturhússins. Við fórum út strax eftir löndun og höfum verið að veiðum í Hvalbakshallinu í leiðindabrælu. Núna erum við á landleið til Neskaupstaðar með um 45 tonn,“ segir Ragnar.