Netagerðarmenn Hampiðjunnar í Vestmannaeyjum hafa lokið við að yfirfara og sauma saman loðnunót handa Ísleifi VE. Núna eftir hádegi í dag (11. febrúar) var hún tekin um borð í skipið. Þar með var veiðarfærið klárt fyrir túr á loðnumiðin.

Reyndar kom öll áhöfn Ísleifs líka að verkefninu með Eyjólf Guðjónsson skipstjóra í broddi fylkingar. Augljóst var af verklagi skipstjórans að hann hafði haldið á þeim nokkrum netanálunum um dagana.

Vinnan við Ísleifs-nótina hefur staðið yfir í þrjár vikur, ekki samfellt þó. Ætlunin var að bæta við nýju neti en það barst ekki í tæka tíð vegna kóvíd-truflunar við framleiðslu og flutning. Víða kemur veiran við.

Nótin er engin smásmíði, 120 faðmar að dýpt (220 metrar) og 300 faðmar að lengd (550 metrar).

Aðstæður í Hampiðjunni í Vestmannaeyjum eru með því besta sem gerist í þessari atvinnugrein á landinu og kristileg heiðríkja einkennandi á vinnustaðnum líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Óskar Pétur Friðriksson tók.

Heiðríkjan er engin tilviljun þegar haft er í huga að sjálfur Pétur postuli var fyrrum sjómaður, með lykil að Gullna hliðinu og verndardýrlingur netagerðarmanna, sjómanna og skipasmiða. Hann er meira að segja sagður hafa gengið á vatni með Jesú.

Eyjólfur er því í raun tvíheilagur, skipstjóri bæði og netagerðarmaður. Skyld´ann hafa prófað að rölta á vatni?