Ferska loðnan, sem Vinnslustöðin flutti flugleiðis til Japans í kynningarskyni, komst alla leið í aðalfréttatíma sjónvarpsstöðvarinnar ANN í gær. Hér er fréttin eins og hún birtist Japönum.

Fremstur í flokki við kynningu á gólfi risaverslunar í Tókýó var Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Japan (og Eyjapeyi). Hann hafði með sér Kitayama, sölustjóra VSV í Japan, og sömuleiðis sjálfan aðstoðarforstjóra verslunarkeðjunnar AEON (hún rekur 19.300 verslanir um þvert og endilangt Japan með 570.000 starfsmönnum!).

Fleiri sjónvarpsstöðvar, vefmiðlar og dagblöð hafa gert loðnumálinu skil. Því er engum blöðum um að fletta að kynningin heppnaðist framar björtustu vonum á þessum gríðarlega mikilvæga markaði fyrir loðnuafurðir. Viðbrögðin eru líka í samræmi við það.
Fyrir áhugasaman má finna Japönsku fréttina HÉR!