Rafmagn til Vestmannaeyja, forgangsorka, varaafl og rafmagnsþörf var til umræð á fundi Bæjarstjórnar sem fram fór á fimmtudag. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, fór yfir og kynnti stöðu á rafmagnsmála í Vestmannaeyjum. Meðal annars fór hún yfir forgangsorkuþörf og ýmsar sviðsmyndir er lúta að henni, stöðu varaafls, flutningskerfið, samtöl við fultrúa Landsnets um varaafl, fjarvarmaveitur og þær aðgerðir sem þarf að grípa til, til þess að bæta afhendingararöryggis raforku. Einnig fór bæjarstjóri yfir fundi með Landsneti og orkumálaráðherra um varaafl og stöðu á afhendingu rafmagns til Vestmannaeyja. Orkumálaráðherra hefur lagt fyrir ríkisstjórn minnisblað um stöðu varaafls í Eyjum.
Ein færanleg varaaflsstöð er komin til Vestmannaeyja og búið er að gefa vilyrði fyrir fleiri stöðvum í mars til þess að bæta stöðu varaafls í Eyjum. Hver stöð tryggir aðeins 1,2 MW af raforku. Staða varafls er óásættanleg eins og hún er núna. Varaafl í Eyjum er 5 MW með færanlegu stöðinni, en forgangsorkuþörf á venjulegum degi er um 11 MW en mun meiri þegar loðnuvertíð er í fullumgangi. Það vantar því að lámarki 6 MW upp á að tryggja lágmarksforgangsorkuþörf. Landsnet ber ábyrgð á að tryggja varaafl að nægt varaafl sé fyrir forgangsorkuna.

Jafnframt greindi bæjarstjóri frá fundum með þingmönnum Suðurlands og samtölum við orkumálaráðherra um mikilvægi þess að breyta umgjörð um fjarvarmaveitur. Þann 10. febrúar sl. var raforka til fjarvarmaveitna landsins skert, sem þó nota aðeins 1% af heildarraforku á landinu. Fjarvarmaveitur þurfa því að skipta yfir í olíu með tilheyrandi mengun og auknum húshitunarkostnaði fyrir íbúa og fyrirtæki í Eyjum.

Þær aðstæður sem bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa varað við undanfarin 2 ár raungerðust sl. þriðjudag, 22. febrúar, þegar rafmagnslaust varð í Vestmannaeyjum í marga klukkutíma og skammta þurfti rafmagn fram eftir degi með tilheyrandi röskun og áhrifum á allt samfélagið. Slík staða kom jafnframt upp í febrúar 2020. Ástandið á þriðjudaginn hafði áhrif á öll heimili og fyrirtæki Í Vestmannaeyjum. Þetta gerist þegar loðnuvertíð er í fullum gangi og mikil verðmæti undir. Jafnframt þurfti að skerða leik- og grunnskóla og kalt var orðið í mörgum húsum.

Almannavarnanefnd Vestmannaeyja fundaði strax á þriðjudagsmorgun með almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Landsneti vegna ástandsins. Einnig ræddi bæjarstjóri við orkumálastjóra og ráðherra orkumála. Öllum aðilum var gert ljóst að staðan á þessum rafmagnsmálum í Vestmannaeyja væri óásættanleg og að aðgerða væri þörf og það strax.

Bæjarfulltrúar D lista lögðu fram eftirfarandi bókun. “Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á mikilvægi þess að bætt verði úr afhendingaröryggi á raforku til Eyja. Ekki hefur tekist að koma VM4 á framkvæmdaáætlun sem er t.d. forsenda orkuskipta í fiskimjölsiðnaði auk styrkingar á flutningsneti uppá landi. Einnig kemur upp grafalvarleg staða gagnvart atvinnulífinu og heimilum þegar flutningsnetið á fastalandinu gefur sig í óveðrum og ekki til staðar varaafl í Eyjum sem dugar nema í brot af þörfinni. Alvarlegasta staðan væri ef sæstrengur VM3 myndi gefa sig – þá yrði ekki verðmætasköpun á loðnuvertíð í Vestmannaeyjum þann veturinn.”

Í niðurstöðu ráðsins kemur fram að þrátt fyrir að bæjarstjórn og bæjarráð hafi ítrekað bent á óboðlega stöðu á varaafli í Vestmannaeyjum er staðan enn óbreytt tveimur árum eftir að Landsnet viðurkenndi að staða varaafls í Vestmannaeyjum væri í ólagi. Vinnuhópur hagaðila í Vestmannaeyjum og Vestmannaeyjabæjar lagði fyrir Landsnet lausn á varaflsvandnum fyrir tæpum tæpum tveimur árum en Landsnet hefur enn ekki brugðist við vandanum. Bæjarstjórn lítur stöðuna grafalvarlegum augum og fer fram á úrbætur strax.

Samþykkt með sjö samhljóða atvæðum bæjarfulltrúa.