Lífleg umræða um samgöngumál fór fram á fundi bæjarstjórnar í vikunni. Bæjarstjóri fór yfir fund sem bæjarfulltrúar áttu með Vegagerðinni um stöðuna í Landeyjahöfn, vinnu við útboð á dýpkun Landeyjahafnar, hugmyndir að föstum dælubúnaði og stöðu á úttektar á Landeyjahöfn.

Harma forystuleysi
Bæjarfulltrúar D-lista lögðu þá fram eftirfarandi bókun. “Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma forystuleysið sem einkennir þunga umræðu gagnvart Herjólfi ohf. Mikilvægt er að eigandi félagsins verji hagsmuni þess opinberlega. Undirrituð leggja áherslu á að góð samskipti og virðing sé viðhöfð í samskiptum stjórnar og starfsmanna félagsins. Mannauður félagsins er einn hornsteina öflugrar þjónustu í samgöngum við Vestmannaeyjar.”

Óboðlegt að nota starfsmannamál í pólitískum tilgangi
Eftir stutt fundarhlé lögðu fulltrúar E og H lista fram bókun. “Það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og nú að bæjarstjórn standi saman um lífæð samfélagsins. Eigandi félagsins er Vestmannaeyjabær og bæjarstjórn Vestmannaeyja skipar stjórn yfir félagið.
Óboðlegt er að bæjarfulltrúar sjálfstæðisflokksins noti erfið starfsmannamál í pólitískum tilgangi. Meirihluti bæjarstjórnar leggur áherslu á að traust og gagnkvæm virðing ríki milli stjórnar og starfsfólks félagsins. Mannauður félagsins er verðmætur og skiptir öllu máli til þess að halda uppi traustum samgöngum milli lands og Eyja

Nauðsynlegt er að auknar kröfur verði gerðar við dýpkun Landeyjahafnar
Í niðurstöðu um málið kemur fram að bæjarstjórn þakkar Vegagerðinni fyrir fundinn og upplýsingar varðandi stöðu mála í Landeyjahöfn. Nauðsynlegt er að auknar kröfur verði gerðar um afköst og tæknilega getu við útboð á dýpkun Landeyjahafnar í vor, líkt og bæjarstjórn hefur farið fram á í langan tíma. Mikilvægt er að áfram verði gert ráð fyrir að veita vetrarþjónustu á dýpkun, enda var mikil framför þegar dýpkunartímabilum var eytt út árið 2019. Sömuleiðis er ánægjulegt að áfram verði unnið að frekari lausnum varðandi fastan dælubúnað og að allra leiða sé leitað til þess að fækka þeim dögum sem Landeyjahöfn er lokuð og tryggja þannig öruggari samgöngur milli lands og Eyja.
Þá hvetur bæjarstjórn Vegagerðina til þess að kalla til verksins öflugra skip í vor komi til þess að aðstæður til dýpkunar í höfninni verði með þeim hætti að núverandi dýpkunaraðili ráði illa við verkið.