Grímur Gíslason

Það er skrýtin tík þessi pólitík, sagði kerlingin forðum daga og það má alveg taka undir þau orð að ýmislegt getur verið undarlegt við þá tík ekki síður en tíkina sem elltist við skottið á sjálfri sér hring eftir hring og nær því aldrei, sama hve lengi er hlaupið.

Ein birtingarmynd þess hve skrítin tíkin getur verið kom okkur fyrir sjónir nú fyrir skömmu. Eins og flesta rekur eflaust minni til varð mikið fjaðrafok í pólitíkinni í Eyjum fyrir sléttum 4 árum, þegar meirihluti Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Eyjum felldi það að viðhafa prófkjör til að velja fulltrúa á framboðslista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar og ákvað val með uppstillingu. Það var hart tekist á um þetta innan flokksins og sumir þeirra sem undir urðu gátu ekki sætt sig við niðurstöðuna. Vegna djúprar óánægju, með að ekki var efnt til prófkjörs, klauf ákveðinn hluti Sjálfstæðismanna, undir forystu Írisar Róbertsdóttur, sig út úr Sjálfstæðisflokknum og efndi til sérframboðs. Framboðs sem fyrst og fremst var efnt til vegna óánægjum með hvaða leið leið Sjálfstæðisflokkurinn notaði til að velja sína fulltrúa á listann – þ.e. uppstillingu en ekki prófkjör.

Allt í einu varð prófkjör ekki aðal málið
Þegar þetta prófkjörsóánægjuafsprengi Sjálfstæðisflokksins raðaði síðan saman sínum lista, í kjölfar óánægju með prófkjörsleysi, fyrir kosningarnar fyrir 4 árum var ekki notast við prófkjör, enda kannski ekki þörf á því þeir sem kölluðu hæst eftir prófkjörinu gátu þar, án prófkjörs, svalað framagrind sinni og komist í forystu. Það var því ekki lengur mikilvægt þá að kalla eftir prófkjöri. Kannski var tíminn naumur til síkra aðgera, eins og afsökunin var þá fyrir því að valin var leið uppstillingar, en það er nú samt yfirleitt allt hægt í þessum efnum ef viljinn er til staðar.

Var viss um að fólk yrði hugsjóninni trútt
Frá þessum tíma eru nú liðin 4 ár og þeir sem efndu til sérstaks framboðs og fengu mikið fylgi, vegna óánægju með að Sjálfstæðisflokkurinn viðhafði ekki prófkjör til að velja á lista sinn, komust í þá stöðu að hafa getað svalað valdafíkn sinni að loknum kosningum. Nú er því kjörtímabili að ljúka og framboð farin að huga að því að stilla á ný upp á lista sína fyrir komandi kosningar.

Í ljósi þess að klofningsframboðið úr Sjálfstæðisflokknum varð til vegna óánægju, með að ekki var viðhaft prófkjör á þeim bæ fyrir 4 árum, var ég algjörlega viss um, þegar að ég sá að sá hópur hyggðist bjóða fram aftur, að viðhaft yrði prófkjör til að stilla upp á lista fyrir komandi kosningar. Annað kæmi vart til greina. Fólk hlyti að fylgja hugsjón sinni nú þegar að það hefði vald og færi til.

Ánægjulegt áhyggjuefni hve hve fáir en samt margir höfðu áhuga!
„Trútt sannfæringunni“ tók „prófkjörs-framboðið“ auðvitað ákvörðun um að viðhafa prófkjör til að stilla upp á lista sinn og tilkynnti það. Ekki varð maður þó var við mikinn kraft í auglýsingum eftir framboðum og opinberlega var lítið um tilkynningar um framboð í prófkjörið áður en framboðsfrestur rann út. Maður velti því þess vegna fyrir sér hvort að hugur fylgdi ef til vill ekki máli í þessu efni. Strax og framboðsfrestur var runninn út birtust fréttir og tilkynningar um að ekki yrði af prófkjöri. Formaður kjörnefndar sagði, í viðtali, að ekki hafi nægjanlega margir boðið sig fram, til að halda mætti prófkjör og áhyggjuefni væri hve fáir hefðu áhuga á þátttöku. Skömmu síðar birtist svo opinber tilkynning frá kjörnefnd þar sem prófkjörið var blásið af en sagt var engu að síður væri ánægjulegt að finna mikinn áhuga fólks að taka sæti á framboðslistanum!! Ætli formaður kjörnefndar hafi ekki vitað af þessum áhuga?

Skilur einhver þessa dellu?
Fram kom i tilkynningunni að samkvæmt reglum hefði átt að kjósa í 4 efstu sætin í prófkjörinu og að lágmarki hefðu 6 þurft að bjóða sig fram. Fram kom að 10 manns hefðu gefið kost á sér til þátttöku í prófkjörinu en ekki nema 4 af þessum 10 hefðu gefið kost á sér í þau 4 sæti sem prófkjörið snérist um!!! Samkvæmt því gáfu 6 kost á sér til þáttöku í prófkjörinu, sem var um 4 efstu sætin, en buðu sig þá fram í einhver önnur sæti en prófkjörið snérist um!! Ég velti fyrir mér hvort margir skilji þessa dellu?

H-entistefna?
Dellumakið í kringum þetta „ekki-prófkjörs-show“ er auðvitað bara skemmtilegt grín en eftir stendur sú staðreynd að framboðið sem efnt var til fyrir 4 árum, vegna óánægju með að ekki var notað prófkjör til uppstillingar hjá Sjálfstæðisflokknum, ætlar ekki og greinilega ætlaði sér aldrei að nota prófkjör til að velja sína fulltrúa.

Getur verið að slíkt hafi ekki verið eins nauðsynlegt nú vegna þess að „réttir“ aðilar voru komnir í þær stöður sem þeir sóttust eftir. Snérist þetta prófkjörstal fyrir 4 árum kannski bara um valdafíkn ákveðinna einstaklinga en ekki áhugann á lýðræðinu eða að gefa stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins færi á að velja fulltrúa á framboðslistann? Getur kannski verið að H-ið standi þá eftir allt saman bara fyrir hentistefnu? Það er ómögulegt að vita því það er svo margt skrýtið í kýrhausnum eins og karlinn sagði í sveitinni forðum.

Grímur Gíslason