Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum hófst í gær og stendur yfir næstu þrjár vikurnar. Fjögur skip taka þátt í verkefninu; togararnir Breki VE og Gullver NS og rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson. Togað verður á tæplega 600 stöðvum á 20-500 m dýpi umhverfis landið.

Ferðir skipanna og togstöðvar má sjá á https://skip.hafro.is/

Verkefnið, sem einnig er nefnt marsrall eða togararall, hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti á hverju ári síðan 1985. Helmingur togstöðva var í upphafi staðsettur af skipstjórum, en öðrum stöðvum var dreift um miðin með tilviljunarkenndum hætti.

Helsta markmið eru að fylgjast með breytingum á stofnstærðum, aldri, fæðu, ástandi og útbreiðslu botnfisktegunda við landið. Einnig verður sýnum safnað vegna ýmissa rannsókna, t.d. á mengunarefnum í sjávarfangi og mat lagt á magn ýmiskonar rusls á sjávarbotni.

Í marsralli 2019 hóf Hafrannsóknastofnun aftur merkingar á þorski eftir nokkurt hlé. Í ár er stefnt að merkingum á þorski úti fyrir Norðurlandi. Auk þess verður hlýri merktur og erfðasýnum safnað úr þorski og hlýra.

Í handbók verkefnisins https://www.hafogvatn.is/static/research/files/handbok_smb_2022.pdf er fyrirhugaðri framkvæmd verkefnisins lýst nákvæmlega.