Leikskóla og daggæslumál voru til umræðu á fundi fræðsluráðs í vikunni en um var að ræða framhald af 2. máli 354. fundar fræðsluráðs. Skólaskrifstofan hefur farið yfir stöðu leikskólamála og metið áætlaða þörf á leikskólaplássum. Í gegnum árin hafa árgangar verið misstórir og því nokkrar sveiflur í þörf á leikskólaplássi. Einnig hefur þróun inntöku barna orðið þannig að reynt er að taka inn flest börn þegar þau hafa náð 12 mánaða aldri og er inntakan oftar yfir árið þ.e. vor, haust og áramót.
Í húsnæðisáætlun sveitarfélagsins er gengið út frá 1% fjölgun íbúa sem miðgildi. Síðastliðin tvö árin hafa árgangar verið um 55 til 60 börn og allt sem bendir til þess að svo verði næstu árin. Ungt fólk hefur verið að flytja í bæinn, ný húsnæði í byggingu og áform um uppbyggingu í atvinnumálum.
Ef fjölgun barna verður í kringum 60 börn má búast við að næstu tvö árin þurfi að fjölga leikskólaplássum um 10 til 15 á ári til að geta tekið inn 12 mánaða börn á sama hátt og áður. Á næstu tveimur árum eru þetta því 20 til 30 rýma aukning við núverandi leikskólaplássum. Árgangar 2018 og 2019 sem flytjast yfir í 5 ára deildina eftir 2 – 3 ár eru litlir árgangar og má þá búast við að bæta þurfi við um 20 til 22 leikskólaplássum aukalega á ári hverju þ.e. árin 2025 og 2026.
Í dag eru 226 leikskólapláss með 5 ára deildinni en þörfin á næsta skólaári verður um 239 leikskólapláss miðað við sömu forsendur. Árið 2026 má búast við að þörf verði á 69 viðbótarplássum miðað við þau leikskólapláss sem við höfum í dag og 60 barna árganga.
Til að mæta þessum áskorunum er lagt til að skoðaðar verði leiðir til að fjölga leikskólarýmum með lausum kennslustofum sem bráðabirgðalausn en um leið skoðað hvort huga þurfi að koma upp nýjum leikskóla eða stækka núverandi aðstöðu á næstu árum.

Í niðurstöðu um málið þakkar ráðið upplýsingarnar. Ljóst er að þörf verður á fleiri leikskólaplássum á næstu árum en til staðar eru í dag.
Fræðsluráð vísar því til bæjarráðs og umhverfis- og framkvæmdasviðs að kanna kaup eða leigu á lausum einingum til að fjölga leikskólaplássum til skemmri tíma. Mikilvægt er að geta tekið þessar einingar í notkun í haust eða eigi síðar en um næstu áramót.
Einnig vísar ráðið því til fjárhagsáætlunarvinnu næsta árs og vinnu við 3 ára áætlunina að skoða hvort þörf sé á byggingu nýs leikskóla eða stækka núverandi aðstöðu á næstu árum.