Mamma. Mögulega er þetta orð gildishlaðnasta orð islenskrar tungu. Mamma er konan sem fæddi mig og ól; konan sem kenndi mér að lesa og skrifa; konan sem saumaði fötin mín í æsku og breiddi yfir mig áður en ég sofnaði. Mamma er konan sem gekk alltaf á milli þegar ágreiningur reis umfram það sem eðlilegt mátti telja; konan sem stóð alltaf með sínum og var til staðar þegar á þurfti að halda. Allt þetta var mamma og svo miklu meira til. Nú er mamma fallin frá.

Ég mun seint gleyma því augnabliki þegar mér var tilkynnt um andlát mömmu. Um leið og tilkynningin var eitthvað svo óraunveruleg og fráleit, kom á sama tíma upp í hugann ólýsanlegt þakklæti fyrir allt sem hún hafði gert og fyrir það sem hún hafði verið. Þá komu líka upp í hugann ýmis brosleg atvik sem skipta máli að rifja upp á slíkum stundum. Þrátt fyrir allt framangreint eru mömmur nefnilega ekki alveg fullkomnar, þó engin komist nær því en þær. Til að mynda gleymist seint þegar mamma fór í bæinn, þ.e. þegar ég var 7 ára gamall og hafði farið í dagsferð með pabba á sjóinn, til að kaupa fótboltabúning knattspyrnufélagsins Týs í Vestmannaeyjum á peyjann. Mamma var ekki meira inni í þessum fótboltaheimi en svo að hún keypti búning stórliðs Arsenal í London, saumaði á hann Týsmerkið og klippti niður lak svo að hún gæti útbúið töluna sjö með striki og saumað á bak búningsins, einsog hún hafði séð í sjónvarpi. Þannig tókst henni að sameina bæjarliðið í Eyjum stórliði Arsenal – með góðum hug einum saman. Búninginn bar ég svo með stolti í mörg ár þar til frændi minni vélaði hann út úr mér.

Mömmu verður ekki minnst án þess að nefna pabba. Pabbi var jafnan mikið á sjónum meðan við systkinin vorum að alast upp. Þrátt fyrir miklar fjarvistir voru þau oftast nefnd saman þegar verið var að tala um annað þeirra, þ.e. Dúlla og Beddi. Þau voru einstaklega samrýmd og studdu hvort annað í því sem þau tóku sér fyrir hendur. Þau héldu saman til Eyja árið 1964 í því skyni að taka þar eina vetrarvertíð. Það má segja að þeirri vetrarvertíð sé nú loks farsællega lokið hjá báðum. Það var mömmu mikið áfall þegar pabbi féll frá fyrir fáeinum árum. Hún lét þau orð stundum falla að henni fyndist sem hann hefði aðeins farið á sjóinn og kæmi fljótlega aftur í land. Þrátt fyrir að óhætt sé að segja að dauðinn komi manni alltaf á óvart þá var mamma í raun og veru tilbúin til að fara þegar kallið kom.

Í dag kveðjum við þá konu sem markaði mig meira í mínum uppvexti en aðrir samferðamenn. Hún má vera stolt af því lífi sem hún lifði og því sem hún skilur eftir sig. Það er stundum sagt að þá fyrst verði maður fullorðinn að gengnum báðum foreldrum. Farðu í friði mamma; þú ert svo sannarlega búin að skila þínu og ég bið fyrir kveðjur til pabba því ég veit að þig hlakkar mikið til að hitta hann á nýjum stað.

Þinn Lúlli.