Áformað að stækka miðbæinn út í hraun

0
Áformað að stækka miðbæinn út í hraun
Hér má sjá hraunið sem áformað er að fjarlægja til að stækka miðbæinn.

Svæði sem í dag er undir hrauni verður í boði fyrir verslun, þjónustu og íbúðir ef áform bæjaryfirvalda ganga eftir samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins. Málið var tekið fyrir í umhverfis- og skipulagsráði þar sem samþykkt var að fela umhverfis- og framkvæmdasviði að skrifa minnisblað um hvernig standa skuli að því að útbúa lóðir á svæðinu.

Svæðið sem um er að ræða er suður af FES-inu og gæti numið um 40.000 m2 ef marka má útreikning Eyjafrétta. Samkvæmt grein Jónu Sigríðar Guðmundsdóttur formaður umhverfisráðs sem birtist á Eyjafréttir.is s.l. fimmtudag þá er svæðið hluti af framtíðarsýn bæjaryfirvalda, í greininni segir hún að unnið sé að minnisblaði um næstu skref svæðisins. “Mikilvægt er að skoða alla möguleika til að fjölga lóðum í miðbænum, enda lóðir í miðbænum mjög eftirsóttar. Nauðsynlegt er fyrir bæjarfélagið að eiga fjölbreyttar lóðir lausar svo frekari uppbyggingu verði ekki hamlað.”

 

Ný hraun eru friðuð en umrætt svæði er að einhverju leyti raskað með slóðum eins og sjá má á þessari mynd.
Frétt úr Morgunblaðinu 12. mars, birt með heimild