Staða sýslumannsins í Vestmannaeyjum var til umræðu á fundi bæjarráðs í vikunni en bæjarráð samþykkti samhljóða að taka þennan dagskrárlið inn með afbrigðum.

Í ljósi frétta um ákvörðun dómsmálaráðherra um niðurfellingu lögsagnarumdæma sýslumanna á landsbyggðinni, undir merkjum stafrænnar og skilvirkra stjórnsýslustöðva sýslumanns í heimabyggð, ákvað bæjarráð Vestmannaeyja að fjalla um málið. Samkvæmt upplýsingum bæjarráðs stendur til að fækka sýslumönnum á landsbyggðinni, en efla starfsemi embættanna sjálfra með stafrænni þróun og sérhæfingu.

Bæjarráð lýsir í niðurstöðu um málið þungum áhyggjum af áformum dómsmálaráðherra um að leggja niður stöður sýslumanna á landsbyggðinni, þar sem ljóst er að áform ráðherra munu veikja embættin. Rúm tvö ár eru síðan baráttan um sýslumanninn í Vestmannaeyjum var tekin síðast og óboðlegt að um leið og nýr ráðherra tekur við embætti þurfi sama barátta að hefjast á ný.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir fundi bæjarráðs með dómsmálaráðherra um málið og koma á framfæri mótmælum ráðsins við þingmenn kjördæmisins.