Rut Haraldsdóttir
Rut Haraldsdóttir

Um leið og ég vil þakka þann mikla persónulega stuðning sem ég hlaut í liðnu prófkjöri langar mig að þakka meðframbjóðendum mínum sérstaklega fyrir skemmtilegar vikur og vinalega baráttu. Ekki síður tel ég þörf á að þakka öllum þeim sem gáfu sér tíma til að mæta og kjósa í prófkjörinu. Ég vona að allir þeir hæfu frambjóðendur sem nú þegar hafa talað máli Sjálfstæðisflokksins opinberlega muni vinna áfram í starfi flokksins og þá vona ég sérstaklega að stuðningsmenn þeirra, fjölskyldur, vinir og kjósendur í liðnu kjöri muni standa að baki okkar glæsilega lista. Við göngum því saman til kosninga í vor.

Hópur okkar einkennist af mikilli breidd í aldri, kyni og reynslu. Hann er sá þverskurður sem bæjarbúar hafa valið sér sjálfir. Ég stefni á að þiggja það sæti sem mér hefur verið úthlutað af kjósendum og skipa þar með baráttusætið um meirihluta bæjarstjórnar Vestmannaeyja í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Fleiri en ég þorði að vona buðu sig fram, margir íbúar voru svo reiðubúnir að ræða málefni sveitarfélagsins og ótrúlegur fjöldi tók á endanum þátt í prófkjöri flokksins. Sökum þess hve viðtökurnar voru góðar er ég sannfærð að það frábæra fólk sem skipar nú lista Sjálfstæðisflokksins geti talað máli bæjarbúa, skilji þeirra áherslur og hafi þekkingu á mikilvægustu málefnunum.

Undir merkjum Sjálfstæðisflokksins sameinast allir þeir sem vilja hagsýnan rekstur og framsýna uppbyggingu. Breiðfylking fólks frá miðju og til hægri. Það verður aðeins einn Sjálfstæðisflokkur í framboði og listabókstafur hans er „D“. Ég trúi því að við munum heyja skemmtilega kosningabaráttu, ég veit að við munum vinna sem ein heild fyrir samfélagið og ég ætla mér því að vera bjartsýn á áframhaldið.

Áfram Eyjar!

Rut Haraldsdóttir