Vala Pálsdóttir

Sýningin Ertu héðan? opnar á laugardaginn í KFUM & K húsinu. Sýningastjórinn er Vala Pálsdóttir en sýningin er afurð meistararitgerðar hennar frá Listaháskóla Íslands og er útskriftarverkefnið hennar frá skólanum. Í ritgerðinni veltir Vala upp þeirri hugmynd að Vestmannaeyjabær taki að sér að halda utan um störf og ævi Júlíönu Sveinsdóttur. „Ég hef lengi verið aðdáandi verka Júlíönu en því miður er að aðgengi að verkum hennar mjög takmarkað,“ segir Vala. “Júlíana er einn af frumkvöðlum íslenskrar myndlistar, hún ásamt Kristínu Jónsdóttur fóru fyrst kvenna til að nema myndlist í Danmörku. Júlíana starfaði alla ævi við myndlist. Hún starfaði jöfnum höndum að textíl og málaralistinni en hún var frumkvöðull á sviði textílverka á Norðurlöndunum. Júlíana hlaut fjölda alþjóðlegra viðurkenninga og það færi vel á því að Listasafn Vestmannaeyja gerði verkum Júlíönu og ævi hærra undir höfði.“

Í heildina verða verk fimm listamanna á sýningunni en Vala leiðir þrjár efnilegar listakonur saman við Júlíönu og Birgi Andrésson, heitinn, þær eru Jasa Baka, Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir og Melanie Ubaldo. Sýningin Ertu héðan? opnar 9. apríl og stendur til 17. apríl. Í tengslum við sýninguna býður Vala Pálsdóttir öllum áhugasömum í gönguferð um Vestmannaeyjar þar sem hún segir frá Júlíönu Sveinsdóttur og þeim slóðum sem hún málaði og varð fyrir áhrifum á. Gönguferðin hefst við KFUM-húsið kl. 11:00 bæði á Skírdag og Páskadag og tekur um klukkustund.

Nánar er rætt við Völu og listakonurnar sem koma að sýningunni með henni í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.
Hér má finna viðburð um sýninguna: https://www.facebook.com/events/s/ertu-he%C3%B0an/778365543127444/