Lögð voru fram drög að atvinnustefnu Vestmannaeyjabæjar á fundi bæjarráðs í vikunni. Stýrihópur um atvinnustefnuna sem skipaður er Írisi Róbertsdóttur, Hildi Sólveigu Sigurðardóttur, Njáli Ragnarssyni, Frosta Gíslasyni og Ívari Atlasyni hefur verið að störfum og Evgenía Mikaelsdóttir, sem sinnt hefur starfi verkefnastjóra. Hópurinn fundaði um drögin fyrr í vikunni og er sammála um að leggja þau fyrir bæjarráð.

Í drögunum er sett fram framtíðarsýn sveitarfélagsins í atvinnumálum, sex lykilmarkmið í atvinnuþróun og áherslur fyrir hvert markmiðanna, en áherslurnar byggja meðal annars á tillögum og athugasemdum, sem þátttakendur í skoðanakönnun meðal bæjarbúa sendu inn, sem og á vinnu í bæjarráði og fagráðum Vestmannaeyjabæjar.

Bæjarráð þakkar í niðurstöðu sinni öllum hlutaðeigandi aðilum fyrir góða vinnu við gerð atvinnustefnunnar. Um er að ræða metnaðarfull drög að stefnu, sem ná til allra helstu þátta atvinnumála Vestmannaeyja.

Bæjarráð leggur til að drögin verði lögð fyrir bæjarstjórn og bæjarfulltrúum gefist svigrúm til umsagnar um stefnuna til 16. apríl nk. Að því loknu mun stýrihópurinn og verkefnastjóri fara yfir umsagnirnar og vinna lokadrög stefnunnar, sem lögð verða fyrir bæjarráð 20. apríl nk. Í framhaldi gefst bæjarbúum kostur á að senda inn umsagnir. Jafnframt mun stýrihópurinn óska eftir umsögnum einstakra fagaðila og fulltrúa atvinnulífs, stofnana og hagsmunaaðila. Að þessu ferli loknu verður stefnunni vísað til bæjarstjórnar til samþykktar 5. maí nk.

Stýrihópnum verði jafnframt falið að móta tillögu að vinnu við aðgerðaáætlun til að fylgja eftir stefnunni.