Málefni Hraunbúða voru til umræðu á fundi bæjarstjórnar í liðinni viku. Samráðshópur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU), Hollvinasamtaka Hraunbúða, fulltrúa aðstandenda heimilisfólks, Félags eldri borgara og Vestmannaeyjabæjar um málefni Hraunbúða, hefur tekið til starfa og fundaði síðast þann 22. mars sl. Fyrirhugað er að halda slíka fundi mánaðarlega. Hlutverk hópsins er að tryggja að sem flestir sem hlut eiga að máli verði upplýstir um starfsemi Hraunbúða og þar skapist vettvangur samvinnu þar sem hægt verður að koma á framfæri ábendingum og upplýsingum, með hagsmuni heimilisfólks að leiðarljósi. Fulltrúum í hópnum ber saman um að þörf sé á slíkum vettvangi og ýmis mál megi leysa með gagnkvæmri upplýsingamiðlun.

Í samráðshópnum eru þau: Una S. Ásmundsdóttir og Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir, f.h. HSU, Þór Vilhjálmsson, f.h. Félags eldri borgara, Halldóra Kristín Ágústsdóttir, f.h. Hollvinasamtakanna, Ragnheiður Borgþórsdóttir, f.h. aðstandenda og Thelma R. Tómasdóttir, f.h. Vestmannaeyjabæjar. Varafulltrúar eru þau: Eydís Unnur Tórshamar og Cecilie B H Björgvinsdóttir, f.h. HSU, Gísli Valtýsson, f.h. Félags eldri borgara, Svanhildur Guðlaugsdóttir, f.h. Hollvinasamtakanna, Sigurhanna Friðþórsdóttir, f.h. aðstandenda og Jón Pétursson, f.h. Vestmannaeyjabæjar.

Húsnæði hjúkrunarheimilisins Hraunbúða:

Í kjölfar eldgossins í Vestmannaeyjum 1973, gáfu skandinavísk félagasamtök og ýmis félagasamtök á vegum Rauða krossins, Vestmannaeyjum dvalarheimilið Hraunbúðir við Dalveg 3. Húsið var afhent Vestmannaeyjabæ til eignar haustið 1974. Umrætt húsnæði var tæpir 2.000 fermetrar að stærð þegar starfsemin hófst. Árið 1990 var byggð ný álma við Hraunbúðir. Við þá breytingu var komið upp nýju og fullkomnu eldhúsi með stórum og góðum borðsal. Árið 1997 var aðstaðan bætt verulega. Ný og bætt aðstaða var svo tekin í notkun árið 2000. Árið 2018 var ráðist í endurbætur á matsal og komið upp betri aðstöðu fyrir dagdvöl. Árið 2017-18 var viðbygging reist við austurhluta Hraunbúða. Í dag eru Hraunbúðir um 2.600 fermetrar að stærð. Starfsemin sem þar fer fram skiptist í hjúkrunarheimili, sem starfrækt er af Heilbrigðisstofnun Suðurlands og dagdvalarþjónustu, sem Vestmannaeyjabær starfrækir.

Vestmannaeyjabær hefur borið kostnað af framkvæmdum við stækkun og breytingar á Hraunbúðum, en Framkvæmdasjóður aldraðra hefur styrkt lítillega sumar af þeim framkvæmdum í gegnum tíðina.

Kveðið er á um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga við byggingu og búnað hjúkrunarheimila í 32. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Þar segir að hlutverk sveitarfélaga í kostnaði við byggingu og búnað hjúkrunarheimila skal vera 15% af stofnkostnaði. Sveitarfélög láta í té lóðir undir byggingar, ríkissjóði að kostnaðarlausu og án greiðslu gatnagerðargjalda og lóðarleigu. Eignarhlutur hvors aðila um sig skal vera í samræmi við kostnaðarhlutdeild, þ.e. 85% eign ríkisins og 15% eign sveitarfélagsins.

Tillaga bæjarstjórnar

Bæjarstjórn leggur til að bæjarstjóra og formanni bæjarráðs verði falið að óska eftir samtali við heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra um byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Vestmannaeyjum samkv. kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga við byggingu og búnað hjúkrunarheimila í 32. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu.

Hraunbúðir hefur þjónað hlutverki sínu vel í bráðum 50 ár. Kröfur samtímans kalla hins vegar á bætta aðstöðu, stór hluti hússins er kominn til ára sinna. Það er því orðið tímabært að huga að byggingu á nýju hjúkrunarheimili, líta til fleiri staðsetninga og horfa til samlegðaráhrifa með þjónustu og húsnæði. Þannig mætti byggja upp heildstæðari þjónustu við aldraða, sem uppfyllir kröfur nútímans m.a. með tilliti til hjúkrunarheimilis, dagdvalarþjónustu, þjónustumiðstöð aldraðra og stuðningsþjónustu við íbúa í heimahúsum. Sveitarfélög sinna ákveðnum þáttum í nærþjónustu í samstarfi við ríkið en ríkið ber þó alltaf ábyrgð á hjúkrunarþjónustu og hjúkrunarheimilum.

Vestmannaeyjabær hefur mikinn metnað við að gera vel í þjónustu við aldraða. Margt gott er gert en nauðsynlegt er að horfa til framtíðar.
Fundargerðir til staðfestingar