„Ég væri alveg til í að geta lifað á tónlistinni en held að það sé ekki mega-raunsætt í augnablikinu. Þess vegna ætla ég að byrja í fjarnámi í Tækniskólanum í haust og stefni á að útskrifast sem húsasmiður,“ segir Mikael Magnússon, starfsmaður Hafnareyrar og besti trommuleikari Músiktilrauna í ár. Hann er liðsmaður þungarokkssveitarinnar Merkúrs sem tók þátt í keppninni en komst ekki í úrslit í þetta sinn. Einstaklingsverðlaun voru jafnframt veitt og þar stóð Mikael uppi sem sigurvegari í flokki trommara og var afar vel að því kominn!

Tveimur sólarhringum síðar var hann uppi í rjáfri í frystigeymslu Vinnslustöðvarinnar, ásamt Heimi Frey Sveinssyni og Bjarka Kristinssyni, félögum sínum í Hafnareyri, við að sníða og festa gifsplötur í loft. Auðséð er að trommarinn beitir smíðaverkfærum af öryggi og heldur fínum takti í handverkinu ekkert síður en þegar hann rokkar á sviði og sveiflar kjuðum í trumbuslætti.

„Ég byrjaði að læra trommuleik í Tónlistarskólanum í Vestmannaeyjum árið 2010, þá sjö ára gamall. Það stóð aldrei annað til en að spila á trommur, mér fannst svo rosalega töff að vera með risastórt apparat framan við mig til að lemja á og halda takti með flottum hljóðum.

Eftir nám í átta ár hætti ég enda ekki hægt að kenna mér neitt lengur sem ég gat ekki lært sjálfur og þroskað frekar með spilamennsku. Ég lærði upphaflega að tromma í popp-rokki og síðan í brasilískri og spánskri danstónlist og yfirleitt öllu – nefndu það bara. Málið var að læra að spila sem fjölbreyttasta takta og tónlist.

Ég get spilað allt sem ég er beðinn um að spila. Sveitaballatónlist? Já, auðvitað. Ef þú vilt að ég slái taktinn á einhvern kassa þegar þú raular Lífið er yndislegt þá geri ég það að sjálfsögðu!

Ég hef fjölbreyttan tónlistarsmekk en fíla langmest þungarokk. Metalica og Skálmöld voru fyrstu böndin sem ég féll fyrir. Frá 2016 hefur Trivium verið uppáhaldshljómsveit. Hún er bandarísk, stofnuð í Orlando á Flórída 1999.

Núna er ég að detta í franska hljómsveit, Gojira. Sú stofnuð var 1996.

Þungarokksmarkaðurinn á Íslandi stækkar ofboðslega hratt og mikið. Við æfðum og æfðum í kóvídinu og höfum aldrei hljómað betur en nú. Mál er komið til að fá loksins að fara á svið og spila og spila opinberlega!

Framundan hjá okkur er gigg hér í Eyjum 20. apríl og annað á Gauknum í Reykjavík 23. apríl, upphitun á útgáfutónleikum.

Í maí er það svo Wacken Open Air Metal Battle hljómsveitakeppnin, sem haldin er á Íslandi í tíunda sinn. Þar keppa sex þungarokkshljómsveitir um að komast á Wacken Open Air keppnina í Þýskalandi til að spila fyrir mörg þúsund manns. Þetta er stærsta  þungarokksfestival veraldar og til mikils að vinna.

Við ætlum okkur að ná í farseðil til Þýskalands en ef svo fer að við löndum ekki sigri spilum við á þungarokkshátíðinni Norðanpaunki á Laugarbakka í Miðfirði um  verslunarmannahelgina. Wacken Metal og Norðanpaunk eru um sama leyti í sumar.“

  • Myndir sýna Mikael í ólíkum hlutverkum, annars vegar sem verðlaunatrommara í ham við settið í Músiktilraunum, hins vegar með félögum sínum í Hafnareyri við störf í rjáfri frystigeymslu Vinnslustöðvarinnar. Á hópmyndinni eru frá vinstri: Heimir Freyr Sveinsson, Mikael og Bjarki Kristinsson