Framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., kom á fund bæjarráðs í vikunni sem leið og gerði m.a. grein fyrir úttektarskýrslu um Herjólf, sem unnin var að beiðni Vegagerðarinnar. Um er að ræða framkvæmd eftirlitsskoðunar í samræmi við ákvæði þjónustusamnings ríkisins við Vestmannaeyjabæ um ferjusiglingar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar/Þorlákshafnar.

Meðal annars voru tekin út gæðakerfi (öryggisstjórnunarkerfi), viðhaldskerfi, ástandsskoðun í samræmi við þurrlegusamning, ábyrgðarviðgerðir og fyrirhugaða slipptöku. Forsvarsmenn Herjólfs ohf. brugðust strax við athugasemdunum í úttektinni, ýmist með því að lagfæra það sem betur mátti fara eða með tímasettum áætlunum um úrbætur. Vegagerðin hefur samþykkt viðbrögðin og úrbótaáætlunina.

Meðal þessa sem gerðar voru athugasemdir við var innleiðing og meðferð á öryggsstjórnunarkerfi en skýrsluritari tekur fram að hans mati hafi vantað mikið upp á að búið hafi verið að innleiða öryggisstjórnunarkerfið og að unnið væri samkvæmt því. Skýrsluna í heild sinni má lesa hér að neðan.

Bæjarráð þakkaði yfirferðina og leggur áherslu á að framkvæmd samningsins gangi vel. Bæjarráði hefur reglulega verið haldið upplýstu um framvindu málsins og ánægjulegt er að heyra að félagið hafi brugðist fljótt og örugglega við þeim athugasemdum sem fram komu.

Úttektarskýrsla Herjólfur 25.feb..2022.pdf