Ég flutti á höfuðborgarsvæðið eins og margt ungt fólk til að ná mér í frekari menntun. Eftir nokkur ár í borginni og mikið og streð í námi ætlaði ég aldrei að flytja til Vestmannaeyja aftur. Það var bara ekki inn í myndinni.

Það sem ég gerði ekki ráð fyrir var það að eignast barn. Þegar eiginkona mín var gengin nokkrar vikur fór ég að hugsa til þess að vera barn í Vestmannaeyjum. Það eru ekkert nema forréttindi að fá að alast upp í eyjum. Frelsið, nálægðin við náttúruna, rólegheitin og tækifæri til sjálfstæðis. Börn sem alast upp í eyjum öðlast sjálfstæði sem einungis fæst í öruggu samfélagi. Ég finn það á syni mínum hversu mikilvægt það er að hann fái að upplifa heimbæ sinn á sínum eigin forsendum.

Hvað varðar mig sem foreldri þá gerði ég mér alls ekki grein fyrir því hve yndislegt er að ala upp börn í eyjum. Tíminn sem skapast er svo ótrúlega mikilvægur. Hér virðast einhvern veginn vera fleiri klukkustundir í sólarhringnum. Þjónusta sveitarfélagsins er einnig til fyrirmyndar. Reyndar er svo vel gert að Vestmannaeyjar eru í 1. sæti í ánægjukönnun Gallup hvað varðar þjónustu við barnafjölskyldur. Það er áþreifanlegt að hér er vilji til að gera vel og gott fólk sem lætur sig þessi mál varða.

Tómstundir barna í Vestmannaeyjum eru fjölbreyttar og vel skipulagðar.
Vestmannaeyjar komu frábærlega út úr könnun Gallup um aðbúnað sveitarfélaga til íþróttaiðkunar. Það er því gríðarlega mikilvægt að það sé enn verið að bæta aðstöðumálin. Gott að fólk leggi ekki árar í bát eftir gott gengi heldur haldi áfram. Því alltaf er hægt að bæta þó gott sé. Frístundastyrkurinn gerir líka öllum börnum kleift að taka þátt í þeim tómstundum sem þeim hugnast. Sonur minn stundar knattspyrnu, handbolta, golf, skák og fer í Fab-Lab á föstudögum. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það yrði töluvert erfitt að stunda það allt á höfuðborgarsvæðinu.

Ég þekki töluvert af ungu fólki sem er búsett á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru brottfluttir Vestmannaeyingar. Þetta eru svona “við gegn þeim” fólk, köllum þau stolta Eyjamenn. Fólk sem má ekki heyra slæmu orði minnst á heimabæ sinn. Mikið af þessu fólki er barnafólk sem áður fluttist í borgina í leit að menntun. Í samtali við mikið af þessu fólki er draumurinn að flytja aftur heim. Flytja heim og fá að ala upp börnin í því góða umhverfi og öryggi sem Vestmannaeyjar bjóða upp á.

Vandamálið er að hér er ekki nægt húsnæði, þó að mikið hafi verið byggt og auka þarf fjölbreytinni í atvinnutækifærum. Þá sérstaklega fyrir háskólamenntað fólk. Þetta er að mínu mati eitt stærsta verkefni sem liggur fyrir bæjarfélaginu. Hvernig fáum við þetta fólk heim? Hvað getur bæjarfélagið gert til að skap þær aðstæður að fólki sem langar að koma aftur heim hafi tækifæri til þess. Við þurfum að hugsa stærra, hættum lausnum til skamms tíma og byggjum til framtíðar. Hér eru tækifærin. Hér vill fólk vera, gerum það að möguleika.

Ellert Scheving Pálsson
Höfundur skipar 5. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitarstjórnarkosningum.