Sýslumaðurinn áfram í Vestmannaeyjum

0
Sýslumaðurinn áfram í Vestmannaeyjum
Eyþór Harðarson, Brynjar Níelsson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Jón Gunnarsson.

Fjallað var um það í fjölmiðlum um miðjan mars að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hygðist leggja til að einn sýslumaður yrði yfir öllu landinu í stað þeirra níu sem nú gegna sýslumannsembætti. Jón var á ferð í Vestmannaeyjum í gær þar sem hann kominn m.a. til að eiga samtal við starfsmenn á embætti sýslumanns og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum vegna þeirra breytinga sem eru fyrirhugaðar á landsvísu. Við fengum Jón til að setjast niður með okkur og ræða fyrirhugaðar breytingar.

Leggja niður umdæmamörki en áfram sýslumenn í héraði
„Það er ljóst að margt hefur breyst í þjónustu þessara embætta og mun halda áfram að gera á næstu árum. Fyrir mér er í raun bara tvennt í stöðunni, það er að sitja aðgerðarlaus og láta þessar stofnanir daga uppi og smátt og smátt fjara undan þeim eða setjast í bílstjórasætið og aðlaga okkar embætti og þjónustu að þessum nýju tímum. Dómsmálaráðuneytið hefur verið í fararbroddi í innleiðingu stafrænna lausna og þar ætlum við að vera áfram. Þar með erum við að tryggja það að Sýslumenn verða áfram til staðar og stöðugildi þeirra verði áfram heima í héraði. Þar er mikilvægt er að forysta sé til staðar innan embættisins sem heldur utan um þjónustuna og leiðir hana. Engin grundvallarbreyting verður á valdheimildum þeirra embætta, sem verður áfram mikil og þurfa áfram t.d. sérmenntun lögfræðinga en er þetta svipað fyrirkomulag og hjá ríkislögreglustjóra gagnvart embættunum í landinu.“ Jón segir að í ljósi nýrra tíma hvað rafræna þjónustu varðar og stafræn verkefni er mikilvægt að dómsmálaráðuneytið og sú þjónusta sem landsmönnum er veitt óháð staðsetningu. Með slíkum hætti skapast aðstæður fyrir sýslumenn á afmörkuðum landsvæðum að sinna verkefnum annarra umdæma án girðinga og hindrana þannig hægt að færa til verkefni á þá staði þar sem vinnuafl og aðstaða er fyrir hendi.

Bætt þjónusta, hagræðing og störf á landsbyggðinni fest í sessi
Jón segir að með þessum hætti sé hægt að bæta þjónustu við landsmenn, fá sem mesta þjónustu fyrir fjármagnið með því að búa til sérhæfingu og sérþekkingu á ákveðnum svæðum. „Þá tekst okkur að vinna þessi verkefni betur og á styttri tíma í stað þess að hvert embætti sé með puttana í öllum málum oft á tíðum með löngu millibili og tilheyrandi upprifjunum og öðru. Með þessu erum við líka að fjölga störfum úti á landi og efla sérþekkingu ákveðinna landshluta.

Tilraun í Eyjum hefur sannað gildi þessara breytinga
Arndís Soffía Sigurðardóttir var skipuð í embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum frá 1. apríl 2020. Á síðustu árum hefur verið unnið að því að flytja aukin verkefni til embættisins, með það að markmiði að efla embættið í Vestmannaeyjum. „Þannig getur verkefni á borð við könnun hjónavígsluskilyrða sem Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur verið að sinna tímabundið og tekið að sér í tilraunaskyni verið varanlega komið fyrir hér líkt og er minn vilji og því fylgt fjármagn og stöðugildi sem byggja undir og efla embættið og festa starfsemi þess betur í sessi. Það þarf sérstaka lagabreytingu til að það verkefni geti verið unnið að einu embætti. Þessi verkefni og önnur skyld verði færð varanlega til Vestmannaeyja. Með því mun skapast sérþekking og samræmd vinnubrögð, en með starfi embættisins hér í Eyjum hafa m.a. opinberast veikleikar í kerfinu á landsvísu sem nú er búið að koma fyrir og bæta þjónustuna.“

Byggja varanlega upp verðmæt innviði um allt land
Jón segist bjartsýnn á þessar breytingar og trúir því að hér sé komin góð varanleg leið til þess að styrkja og festa í sessi opinber störf á landsbyggðinni. „Þetta eru ekki ný markmið, það hafa verið prentaðar byggðaáætlanir, stjórnarsáttmálar og ýmis fögur fyrirheit um einmitt þessa hluti en oft verið minna um efndir. Ég trúi því að hér séum við komin með öflugt vopn í þessari baráttu. Í dag eru 24 starfsstöðvar á vegum þessara embætta um allt land með þessum breytingum verður tryggt að þessum stöðvum verður haldið gangandi og þær efldar eftir fremsta megni. Á þessum stöðum erum við að bæði reka og leigja húsnæði sem er mun ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu, þar felast líka tækifæri í hagræðingu. Þetta allt ætlum við að tryggja með lagasetningu sem gerir það að verkum að þau sem á eftir mér koma í þetta embætti geta ekki breytt þessu með pennastriki heldur þarf málið alltaf að fara í gegnum Alþingi.“  

Misjafnar undirtektir
Jón segir þessa vinnu ekki síst hafa verið hrundið af stað fyrir tilstilli vinnu heimamanna. „Þó svo að ég sé þingmaður höfuðborgarsvæðisins þá hef ég alltaf látið málefni landsbyggðarinnar mig mikið varða og kynntist baráttumálum þessara svæða vel þegar ég gegndi stöðu samgönguráðherra og er ánægður með mörg þau mál sem ég vann að á þeim vettvangi. Þar á meðal viljayfirlýsing sem ég undirritaði um rekstur Vestmannaeyjabæjar á Herjólfi sem var fyrsta skrefið sem stigið var í stórbættri þjónustu við Eyjamenn. Ég hef frá því ég tók sæti í þessu ráðuneyti fundir fyrir hvatningu og samstarfsvilja heimamanna víða um land fyrir því að leita farsælla lausna í þessum málaflokki. Þar hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum gengið fremstir í flokki. En ég verð því miður að segja að viðbrögð núverandi bæjaryfirvalda hér í Eyjum hafa ekki verið jafn uppbyggileg, það eru mér mikil vonbrigði þrátt fyrir samtal og þau erindi sem ég hef sent þeim þá hafa þau kosið að rangtúlka mín áform og farið í það að leggja stein í götu þessarar þróunar í stað þess að sjá sóknarfærin í þessum breytingum.”

Frekari styrking á landsbyggðinni
Jón segir þetta ekki það eina sem hann sé með í vinnslu í ráðuneytinu en fyrirhugað er að fara svipaða leið með lögregluembættin. „Við ætlum gera það sama með lögregluembættin með því að beina ákveðnum verkefnum á landsvísu á sama staðinn og skapa þar með sérþekkingu á ákveðnum málaflokkum víðsvegar um landið. Þannig getum við samræmt vinnubrögð, komið málum fyrr í farveg, bæta þjónustu og styrkja embættin heima í héraði. Þar erum við með stór áform fyrir embættið í Vestmannaeyjum. Það er ljóst að opinberum störfum á vegum ráðuneytisins í Vestmannaeyjum fækkar ekki á minni vakt því get ég lofaði ykkur,“ sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að lokum.