Ragnar Óskarsson

Ég hef  síðustu daga verið að bera sama sýn og stefnu Eyjalistans og Sjálfstæðisflokksins í fjármálum. Þetta er ekki flókinn samanburður þótt afar ólíkur sé.

Hér er réttað byrja á því að í sveitarstjórnarlögum er gert ráð fyrir því að að bæjarstjórnir noti tekjur sínar til þess að veita íbúum sínum eins góða þjónustu og unnt er án þess að steypa fjármálum sveitarfélagsins í vandræði. Þessari meginstefnu hefur Eyjalistinn svo sannarlega fylgt. Hann hefur í störfum sínum kappkostað að styrkja innviði bæjarfélagsins með myndarlegum hætti og fjárfest af skynsemi til framtíðar. Hann hefur líka kappkostað og tekist að halda fjárhagslegri stöðu bæjarins stöðugri og öruggri. Fyrir vikið hefur Eyjalistanum tekist að byggja upp innviði sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir í ólestri þegar hann fór frá völdum fyrir fjórum árum. Eyjalistinn hefur og fjárfest af skynsemi, svo ég nefni nýju og glæsilegu slökkvistöðina sem dæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki í langan tíma birt eins afdráttarlausa stefnu í fjármálum eins og hann gerir nú. Nú er stefna hans einfaldlega sú að skynsamlegast sé að geyma í sjóðum þær sameiginlegu tekjur sem bæjarbúar greiða  til samfélagsins. Þeir vilja safna peningum sem hvorki má snerta við nota til brýnna verkefna í bæjarfélaginu. Fyrir vikið grotna innviðirnir niður, þjónusta við bæjarbúa verðu minni og dýrari, fagmennska víkur fyrir fúski og áfram mætti telja. Viðhaldi eigna bæjarins er ekki sinnt og fjárfestingar eru í lágmarki. Allt er þetta vegna þess að aðalmarkmiðið Sjálfstæðismanna er að safna peningum í sjóði sem ekki má nota til almenningsþjónustu þrátt fyrir æpandi þörf.

Mér finnst við öll þurfa að gefa þessu gaum núna degi fyrir kosningar, ekki síst barnafólk sem á geysilega margt undir traustum og góðum leik-, og grunnskólum en einnig eldra fólk sem sárlega vantar lausnir, sérstaklega í húsnæðismálum. Stefna Sjálfstæðisflokksins er ekki stefna fyrir almenning í Vestmannaeyjum. Stefna þeirra minnir helst á brask auðmanna, þeirra sem eiga Sjálfstæðisflokkinn og alls staðar sjá gróðamöguleika í hverju skoti. Og eitt er víst að græðgin ber þá alltaf ofurliði.

Höfnum þessari stefnu Sjálfstæðisflokksins og kjósum stefnu Eyjalistans sem mótast af þörfum almennings í Vestmannaeyjum.

Ragnar Óskarsson

Ritstj