Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins inniheldur 18 ólíkar persónur sem við teljum að sé mikilvægt fyrir samfélagið og liðsheildina. Þessi hópur mun skipta lykilmáli þegar kemur að því að manna nefndir og ráð sem þarf til að stýra Vestmannaeyjabæ en til þess þarf um  20 einstaklinga og fer aðal vinnan við stjórn Vestmannaeyjabæjar fram á þeim vettvangi.

Mörg nöfn hafa verið á reiki í umræðunni um bæjarstjóraefni okkar en ekkert af þeim kemur frá okkur. Við erum sammála um að fyrst teflum við fram okkar liði og gerum það vel. Fáum við til þess umboð munum við velja góðan bæjarstjóra sem verður góður liðsauki í okkar annars góða lið. Það verður einstaklingur sem við treystum til að framkvæma okkar helstu stefnumál eins og sóknaráætlun fyrir ungt fólk, stórsókn í hagsmunagæslunni, ábyrgan rekstur, þjónustuaukningu fyrir okkar bestu borgara, meira frelsi foreldra, gjaldfrjáls grunn leikskólagjöld og framúrskarandi skólaumhverfi svo eitthvað sé nefnt.

Teflum fram öllu liðinu
Góð liðsheild einkennist meðal annars af samheldni, samstöðu og góðum samskiptum. Skýrri stefnu um hvert á að stefna og að allir þekki sín hlutverk. Að ógleymdu trausti og virðingu til hvors annars. Við vorum sammála um að tefla fram öllu liðinu núna í kosningum ekki bara efstu frambjóðendunum eins og oft er raunin. Allir hafa fengið hlutverk, skrifað greinar, komið að stefnumótun og áfram má telja.

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins var samansettur í prófkjöri þar sem við settum traust okkar til ykkar. Í öllu prófkjörsferlinu mátti sjá samstöðu, samheldni og samskipti á góðum nótum. Það var gagnkvæm virðing milli allra þeirra sem sóttust eftir kjöri, þó svo að við værum í raun að keppa á móti hvort öðru.

Eftir prófkjör hefur samstaðan og samheldnin bara aukist sem hefur styrkt liðsheildina. Rétt eins og að öllum bæjarbúum var velkomið að taka þátt í prófkjöri okkar buðum við öllum sem það vildu að hjálpa okkur að setja upp stefnu flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Við héldum opna stefnumótunarfundi og yfir 100 Vestmannaeyingar komu að mótun stefnu okkar. Niðurstaðan var frábær stefnuskrá flokksins, skýr stefna valin á lýðræðislegan máta. Eins og það á að vera.

Framboðslistinn sem er samansettur af ykkur kjósandi góður, stendur saman sem ein liðsheild, með eina skýra stefnu.

Byggjum upp jákvætt og samheldið samfélag því hér eigum við heima.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins

Ritstj