Það voru okkur vonbrigði hvernig núverandi meirihluti lágmarkar viðbrögð sín við spurningum um framtíð hraunsins. Á myndinni má sjá hluta hraunsins sem verður mokað burt.

Hvort sem um var að ræða hluta af kosningastefnu eða feimni þá ákváðu þeir flokkar sem mynda núverandi meirihluta að vera algerlega án afstöðu um það álitaefni að moka burt fallegum hluta hraunsins. Þessa umræðu settum við af stað á eyja- og samfélagsmiðlum og fór hún víða. Aðeins einn flokkur brást við greininni okkar með nokkuð skýrum hætti.

Skemmtileg viðbrögð en færslunni eytt
Í greininni komum við fram með málefnalega gagnrýni á áform bæjarstjórnar að moka burt hrauninu fyrir fjölbreyttar lóðir og stækkun miðbæjarins. Voru okkar helstu rök þau að kostnaðurinn yrði of mikill, nærliggjandi starfsemi (fiskimjölsverksmiðja) passi ekki við þessa tegund byggðar, nægt rými og tækifæri væru til að gera núverandi miðbæ enn betri og, það sem okkur þykir einna mikilvægast, vernd og virðing fyrir náttúrunni og sögu Eyjarinnar. Ýmis viðbrögð komu fram hjá Eyjaskeggjum og fólki sem býr uppi á landi sem kýs að moka hrauninu burt og vorum við ánægð með það. En okkur þótti mjög leitt að sjá að færslunni, sem við deildum í mjög vinsælum hópi Eyjamanna á samfélagsmiðlinum Facebook, var eytt fyrir nokkrum dögum. Sambærileg færsla áhugamanns um að moka þessum hluta hraunsins í burtu fékk að lifa.

Snýst ekki pólitík um að taka afstöðu? Við þurftum að lesa á milli línanna
Annar flokkurinn sem myndar meirihluta í bæjarstjórn telur „umræðuna ekki vera farna af stað“ (og gerði ekkert til að hefja hana). Hinn flokkurinn vill stíga varlega til jarðar. Fengust þessi svör þegar þeim var stillt upp við vegg á opna framboðsfundinum í Eldheimum. Minnihlutinn ætlar ekki að moka hrauninu burt á næsta kjörtímabili. Ekki er hægt að túlka svör meirihlutans og aðgerðir öðruvísi en að barist verði fyrir því að hrauninu verði mokað burt ef aðstæður leyfa. En betra hefði verið að flokkarnir tveir hefðu einfaldlega sagt kjósendum það.

Við lýsum yfir vonbrigðum með afstöðuleysi meirihlutans í bæjarstjórn, sem hóf þessa stóru vegferð um óafturkræfa skemmd á þessum fallega hluta hraunsins, nú þegar korter er í fyrstu sveitarstjórnarkosningar hjá flestum þeim sem hér skrifa undir. 

Aníta Lind Hlynsdóttir
Anna María Lúðvíksdóttir
Arnar Freyr Ísleifsson
Birta Sól Sæþórsdóttir
Breki Einarsson
Elísabet Guðnadóttir
Eva Sigurðardóttir
Eydís Ósk Þorgeirsdóttir
Guðfinna Dís Sveinsdóttir
Helgi Birkis Huginsson
Jóhanna Björg Bjarnadóttir
Jón Ævar Hólmgeirsson
Klara Örvarsdóttir
Kristín Inga Þorvaldsdóttir
Marcin Kazimierz Zaborski
Melkorka Mary Bjarnadóttir
Ragnheiður Sigurðardóttir
Saga Tórshamar
Salka Sól Örvarsdóttir
Sigurlaug Margrét Sigmarsdóttir