Á visir.is kemur fram að Héraðsdómur Suðurlands hafi dæmt fyrrverandi skipstjóra á Herjólfi í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að sigla Vestmannaeyjaferjunni ítrekað án þess að hafa gild atvinnuréttindi og skrá aðra skipstjóra í sinn stað án þeirra vitundar.

Skipstjórinn var sendur í leyfi en samið var um starfslok hans í síðasta mánuði. Fjórir starfsmenn Herjólfs höfðu þá sagt upp vegna málsins.

Fyrir dómi gekkst maðurinn skýlaust við brotunum sem honum voru gefin að sök. Sagðist hann iðrast gjörða sinna og hann hefði misst vinnuna vegna þeirra. Verjandi óskaði eftir að refsing hans yrði bundin við skilorð.

Héraðsdómur féllst á að skilorðsbinda þrjátíu daga fangelsisdóminn í tvö ár með vísan til þess að hann hefði játað brot sitt og hann hefði ekki sætt refsingu áður.

Við ákvörðun refsingar var litið til iðrunar manns og að hann hefði verið samvinnufús auk þess sem háttsemi hans hefði haft veruleg neikvæð áhrif á líf hans. Brotin hefði þó verið alvarleg og náð yfir þónokkurra daga tímabil og nokkrar ferðir á farþegaskipi.

Fyrr­verandi skip­stjóri á Herjólfi dæmdur í mánaðar­fangelsi – Vísir (visir.is)