Nú í kvöld var haldinn kynningarfundur á fyrirhugaðri starfsemi Icelandic Land Farmed Salmon (ILFS) í Viðlagafjöru auk þess sem Vestmannaeyjabær kynnti tillögur á breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna verkefnisins. 

Hrafn frá ILFS fór vel yfir markmið og sýn fyrirtækisins og þá ákvörðun hvers vegna Vestmannaeyjar væru góður kostur. Kom þar meðal annars fram að nálægð við höfn og sjávarhiti væru með ákjósanlegasta móti auk þess sem við Vestmannaeyjar er staðbundin alda frá suðvestri, og því Viðlagafjara í skjóli frá henni. 

Ljóst er að um gríðarstóra starfsemi er að ræða á alla mælikvarða og er áætlað að heildarfjöldi nýrra starfa sem skapist við verkefnið verði um 240 stöðugildi. Þar af allt að 120 störf við eldið sjálft, en fiskeldið mun framleiða um 11.500 tonn af óslægðum laxi á ári ef allar áætlanir um stækkun ná fram að ganga. Uppbygging er áætluð í tveimur hlutum (fyrst 4.900 tonn, svo 6.600 tonn), en eldið verður á landi í lokuðum kerjum.

Auk mateldisins í Viðlagafjöru ætlar fyrirtækið að byggja upp seiðaeldi við botn Þrælaeiðis. Þar verður notað svokallað RAS kerfi við vinnsluna sem byggist á því að endurnýta vatn við vinnslu; það þýðir að hver líter af vatni verður endurnýttur allt að 100 sinnum. Með þessu kerfi er farið betur með orku og auðlindir en almennt gengur og gerist í fiskeldi. Hrafn lagði áherslu á að allt verkefnið yrði unnið í sátt við bæinn og með umhverfissjónarmið í huga. 

Dagný Hauksdóttir, skipulags- og umhverfisfulltrúi Vestmannaeyjabæjar fór svo yfir tillögur að breytingum á aðal- og deiliskipulagi vegna verkefnisins. Vert er að taka fram að breytingarnar eru á vinnslustigi og geta enn tekið breytingum. 

Eitt af því sem kom fram í máli Dagnýjar er að efnistökusvæði í Viðlagafjöru verður minnkað niður í ¼ hlut af því sem er nú og aðkoma að svæðinu mun breytast, þar verður ennþá sandfang, en verið er að hefja landmótun á svæði AT-2; hitaveitusvæðinu, en efnisvinnsla verður flutt þangað. Í fjörunni er miðað við að reist verði vinnslubygging fyrir fiskeldið ásamt um 30 kerjum með eldi. Kerin verða misstór, en þau stærstu allt að 15 metrar á hæð. Ljóst er að nokkuð neikvæð ásýndaráhrif verða á svæðinu frá nokkrum vinsælum útivistar- og náttúruperlum Vestmannaeyja, meðal annars frá Eldfelli og Heimakletti. Framkvæmdinni eru þó settir skilmálar og bærinn vinnur að lausn með framkvæmdaaðilum um hvernig má draga úr ásýnd. 

Hátt í 40 íbúar mættu á fundinn og í lok hans myndaðist fjörug umræða með góðum fyrirspurnum úr sal, sem er ekki nema eðlilegt i ljósi neikvæðrar umfjöllunar um fiskeldi í sjó á síðustu misserum. 

Forsvarsmenn verkefnisins svöruðu öllum spurningum og vildu meina að næg orka og vatn væri til staðar fyrir vinnsluna. En tóku einnig fram að aukin nýtingarþörf Vestmannaeyja með þessari vinnslu ásamt sífellt stækkandi bæjarfélagi myndu án vafa setja aukinn þrýsting á stjórnvöld um betri dreifileiðir á orku og vatni til bæjarins.

Fréttin hefur verið uppfærð