„Það var pínulítið óvænt og hröð atburðarás sem gerði það að verkum að nú eru kynntir til leiks tveir nýir starfsmenn Eyjafrétta. Í okkur mætast annars vegar margra ára reynsla og traust handtök og hins vegar fersk augu og nýjar hugmyndir. Þessar breytingar áttu sér stað í lok maí og settu útgáfu síðasta blaðs úr skorðum,“ segir í greinarkorni sem Ómar Garðarsson, ritstjóri Eyjafrétta og Eygló Egilsdóttir, ritstjóri eyjafrettir.is skrifa í blað Eyjafrétta sem verður dreift í dag, 8. júní.

Þetta er þeirra fyrsta blað og er 28 síður að stærð og helgað sjómannadeginum að nokkru leyti. „Við tökum við góðu búi og stefnum á að gera traustan miðil, enn betri. Afrakstur okkar fyrsta samstarfs má sjá á þessum síðum sem við sendum frá okkur með stolti og mikilli tilhlökkun yfir framhaldinu,“ segja þau.

Blaðið er fjölbreytt að efni og verður dreift í búðir og til blaðburðarbarna fyrir hádegi. Hægt er að nálgast blaðið í lausasölu hjá Krónunni, Kletti, Tvistinum og Skýlinu.