Það verður mikið að gerast í höfninni í Eyjum en von er á tæplega 90 skemmtiferðaskipum í sumar. Að sögn hafnarstjóra hófst siglingatímabilið í byrjun maí og von er á síðasta skipinu þann 20. september, svo sumarið er langt á höfninni í ár.

Stærsta skemmtiferðaskipið sem leggst að bryggju í ár er 62.375 tonn, var það einmitt fyrsta skipið sem kom til hafnar í sumar. Von er á því aftur þann 5. ágúst.

Hafnarstarfsmenn eru einnig að vinna að því að leggja göngubraut með handriði á bryggjukantinum til að auka öryggi ferðamanna og þeirra fjölmörgu Eyjamanna sem njóta göngutúra á bryggjunni.

Einnig er verið að fjölga leguplássum fyrir skemmtibáta og eru starfsmenn hafnarinnar að setja niður flotbryggjur í þessum töluðu orðum.