ÍBV gerði jafntefli á móti Fram í fjörugum leik í Úlfarsárdalnum og var lokaniðurstaða 3-3 í leikslok. Kærkomið jafntefli hjá liðinu eftir nokkra leiðinlega tapleiki í röð.

Mörk ÍBV skoruðu: Andri Rúnar Bjarnason (á 2. mínútu úr víti), Andri Rúnar Bjarnason (á 22. mínútu) og Alex Freyr Hilmarsson (á 61. mínútu), en hann fékk slæmt höfuðhögg undir lok leiks og fór af leikvelli í kjölfarið.

Þar var mikil hátíð og fögnuður á nýja vellinum hjá Fram þar sem verið var að vígja bæði nýja stúku og völl, en Fram flutti alla sína starfssemi úr Safamýri í Reykavík upp í eitt nýjasta hverfi Reykjavíkur í Úlfarsárdal fyrir skemmstu.

Það gleymdist reyndar að taka það fram að kvennalið Fram í fótbolta vígði völlinn síðasta laugardag þegar þær tóku á móti KH og unnu þann leik  3-2. Þær spila í 2. deildinni.

Nokkra athygli hefur vakið að Heimir Hallgrímsson var skráður á leikskýrslu síðasta leiks hjá ÍBV, en þetta var haft eftir Hemma Hreiðars á vísi.is
“Heimir er Eyjamaður í húð og hár. Hann vill styðja við bakið á okkur. Það er stórkostlegt að hafa Heimi hjá okkur og hann vill leggja sitt af mörkum og vera innan handar sem er frábært og við komum til með að nýta okkur þann viskubrunn.”