Hafrannsóknarstofnun gaf út fyrir helgina nýja ráðgjöf í veiðum fyrir næsta fiskveiðiár, eins og kunnugt er orðið. Ráðgjöfin felur í sér töluverða skerðingu í nokkrum mikilvægustu stofnunum og vildum við fá að heyra beint frá okkar fólki hér í Eyjum hvaða áhrif þetta gæti haft á veiðar og vinnslu í landi.

Niðurskurður Hafró núna kemur ekki á óvart, það eru auðvitað engu að síður mikil vonbrigði að þetta sé staðan og þarf að hafa í huga að samanlögð skerðing í þorski á síðan 2020 er 23%. Þessi skerðing á þremur árum jafngildir meðalársafla eins skips af þorski.„ Segir Sverrir Haraldsson sem er sviðsstjóri bolfiskvinnslu hjá Vinnslustöðinni.

Annað sem kemur illa við okkur er mikil skerðing í gullkarfa og djúpkarfa en báðar karfategundirnar skerðast um 20%. Það er afar slæmt fyrir okkur sem erum með talsvert stóran hluta aflaheimilda okkar í gullkarfa auk þess sem djúpkarfi skiptir einnig miklu fyrir okkur. Horfur í karfa eru almennt frekar slæmar.

Sjómanna kveðjur

Einnig er lækkun á ráðgjöf í fleiri tegundum. Síld skiptir okkur miklu máli en hún dregst saman og eru það vonbrigði þar sem síldarstofninn hefur verið á uppleið. Einnig lækkar ráðgjöf í ufsa auk margra annarra tegunda, skötusel, þykkvalúra ofl. Heilt yfir er þetta mjög dökk ráðgjöf sem við erum að sjá núna.

Einu góðu fréttirnir sem skipta verulegu máli, eru aukning í ýsu um 23%. Ýsustofninn hefur verið á uppleið og virðist vera í góðu standi. Þetta hjálpar okkur mikið þar sem erum með stóran ýsukvóta og hófum ýsuvinnslu í Hafnarfirði á síðasta ári. Ýsan mun því vega eitthvað á móti skerðingum í þorski og karfa en þó bara að hluta til. Aukning í löngu, langlúru, keilu og fleiri tegundum er að sjálfsögðu jákvæð en vegur ekki þungt í heildarafla okkar.

Það má vissulega gagnrýna ýmislegt varðandi ráðgjöfina en hún er samt sem áður það eina sem við höfum til að byggja heildaraflann á. Farsælast er að atvinnugreinin og vísindin vinni saman og það samstarf má auka verulega. Einnig er afar slæmt að vita sem er, að Hafrannsóknir hafa skerst vegna minna fjármagns til þeirra frá ríkinu og um leið erum við með þessar slæmu niðurstöður núna.

Mestu skiptir að bregðast við niðurskurðinum með aðgerðum sem auka virði þess afla sem við höfum úr að spila. Vinnslustöðin er í góðri stöðu til þess þar sem við höfum byggt upp öfluga virðiskeðju, t.d. í Portúgal þar sem við erum í áframvinnslu og dreifingu á markaðnum með fyrirtæki okkar, Grupeixe. Einnig er uppbygging víðar sem skiptir enn meira máli nú en áður.„ Segir Sverrir að lokum. 

Sjómanna kveðjur