Fleira gott er að gerast í Grunnskóla Vestmannaeyja (GRV) en sá glæsilegi árangur sem náðist í fyrsta bekk í vetur í átakinu, Kveikjum neistann. Nemendur í þriðja og sjötta bekk skólans bættu sig verulega á í stærðfræði eftir markvissa þjálfun milli prófa síðasta haust og vetur og í vor.

Á síðasta fundi fræðsluráðs kynnti Helga Sigrún Þórsdóttir, kennsluráðgjafi hjá skólaþjónustu niðurstöðurnar sem sýna verulegar framfarir í báðum bekkjum. Í fundargerð segir: Skimunarpróf í stærðfræði sem mælir færni nemenda í grunnþáttum er lagt árlega fyrir nemendur í þriðja og sjötta  bekk. Kennsluráðgjafi leggur prófið fyrir og vinnur, ásamt kennurum, áætlun um markvissa þjálfunarvinnu í stærðfræði í kjölfarið. Prófið var lagt fyrir þriðja bekk í desember 2021 og þá voru 28 nemendur (46%) sem náðu ekki hundraðsröð 70. Allir nemendur fengu aukna þjálfun í stærðfræði og fram fór markviss þjálfun í skóla og heima í grunnaðgerðum stærðfræðinnar.

Prófið var lagt aftur fyrir nemendur í apríl sl. og voru þá átta nemendur (13%) sem ekki náðu hundraðsröð 70. Meðaltal árgangs hækkaði úr 8,7 í 11,3.

Prófið í sjötta bekk var lagt fyrir nemendur í október 2021 og þá voru 37 nemendur (75,5%) sem ekki náðu hundraðsröð 50 en eftir markvissa þjálfun voru 21 nemandi (44%) sem ekki náði hundraðsröð 50. Meðaltal árgangs hækkaði úr 21,7 upp í 29,1.

Þetta var fyrsti fundur nýs fræðsluráðs og hann sátu:

Aníta Jóhannsdóttir formaður,
Ellert Scheving Pálsson aðalmaður,
Hafdís Ástþórsdóttir aðalmaður,
Kolbrún Anna Rúnarsdóttir 1. varamaður,
Halla Björk Hallgrímsdóttir aðalmaður,
Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Drífa Gunnarsdóttir starfsmaður sviðs, Kolbrún Matthíasdóttir áheyrnarfulltrúi.