Fleira gott er að gerast í Grunnskóla Vestmannaeyja (GRV) en sá glæsilegi árangur sem náðist í fyrsta bekk í vetur í átakinu, Kveikjum neistann. Nemendur í þriðja og sjötta bekk skólans bættu sig verulega á í stærðfræði eftir markvissa þjálfun milli prófa síðasta haust og vetur og í vor.

Á síðasta fundi fræðsluráðs kynnti Helga Sigrún Þórsdóttir, kennsluráðgjafi hjá skólaþjónustu niðurstöðurnar sem sýna verulegar framfarir í báðum bekkjum. Í fundargerð segir: Skimunarpróf í stærðfræði sem mælir færni nemenda í grunnþáttum er lagt árlega fyrir nemendur í þriðja og sjötta  bekk. Kennsluráðgjafi leggur prófið fyrir og vinnur, ásamt kennurum, áætlun um markvissa þjálfunarvinnu í stærðfræði í kjölfarið. Prófið var lagt fyrir þriðja bekk í desember 2021 og þá voru 28 nemendur (46%) sem náðu ekki hundraðsröð 70. Allir nemendur fengu aukna þjálfun í stærðfræði og fram fór markviss þjálfun í skóla og heima í grunnaðgerðum stærðfræðinnar.

Prófið var lagt aftur fyrir nemendur í apríl sl. og voru þá átta nemendur (13%) sem ekki náðu hundraðsröð 70. Meðaltal árgangs hækkaði úr 8,7 í 11,3.

Sjómanna kveðjur

Prófið í sjötta bekk var lagt fyrir nemendur í október 2021 og þá voru 37 nemendur (75,5%) sem ekki náðu hundraðsröð 50 en eftir markvissa þjálfun voru 21 nemandi (44%) sem ekki náði hundraðsröð 50. Meðaltal árgangs hækkaði úr 21,7 upp í 29,1.

Þetta var fyrsti fundur nýs fræðsluráðs og hann sátu:

Aníta Jóhannsdóttir formaður,
Ellert Scheving Pálsson aðalmaður,
Hafdís Ástþórsdóttir aðalmaður,
Kolbrún Anna Rúnarsdóttir 1. varamaður,
Halla Björk Hallgrímsdóttir aðalmaður,
Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Drífa Gunnarsdóttir starfsmaður sviðs, Kolbrún Matthíasdóttir áheyrnarfulltrúi.

Sjómanna kveðjur