Gullberg VE 292,  nýtt skip Vinnslustöðvarinnar kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum kl. hálf átta í morgun. Nú tekur við vinna að koma skipinu á íslenska skipskrá og mun það taka nokkra daga. Stefnt er á að sýna skipið almenningi síðar í vikunni þegar allt er klárt. Skipstjóri er Jón Atli Gunnarsson áður skipstjóri á Kap VE.

Skipið er keypt frá Noregi og hét  Garðar. Það er liðlega 70 metra langt og 13 metra breitt. Lestarpláss er 2.100 rúmmetrar. Aðalvélin er ný, afar hagkvæm í rekstri og togkraftur er mikill. Búið er að fara yfir kælikerfi og lestar, blökkin er ný og skipið lítur í alla staði vel út.

Forráðamenn Vinnslustöðvarinnar, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri og Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs félagsins lýstu yfir ánægju með nýja skipið sem er fjórða uppsjávarskipið í eigu VSV. „Þetta er öflugt og gott skip og kemur sér vel á makrílnum í sumar. Það  eru allar líkur á að makríllinn verði fyrir austan eins og í fyrra og þá er gott að  vera með fjögur skip,“ sagði Binni.

Enn á eftir að færa skipið yfir á íslenska skipaskrá og því er það ennþá með upphaflega nafnið.