Eyjakonan Aldís Gló Gunnarsdóttir mætir á Goslok með sýningu sína, Tabú sem verður í Tónlistarskólanum og er aldurstakmarkið átján ár. Það var fyrr á þessu ári sem Aldís var með sýningu með þessu nafni sem vakti mikla athygli. Viðfangsefnið konan á sínum á sínum viðkvæmustu stundum. Ögrandi verk, erótísk og sum gott betur en Aldís hefur ekki áhyggjur af því.  

„Ég var lengi búin að mála verk sem að ég vissi að væru mjög seljanleg. Verk sem að pössuðu við sófann og jafnvel fylgdu tískunni og það plagaði mig alltaf aðeins,“ sagði Aldís sem býr í Garðabæ. „Ég hafði átt nokkuð mörg samtöl við aðra myndlistarmenn í Grósku um að við værum allt of „boring“ og það vantaði alla ögrun í verkin. Ég var sem sagt farin að þyrsta svolítið í að ganga fram af mér og koma mér út úr kassanum. Það var svo einn daginn sem ég er að ræða þetta við manninn minn og hann sagði bara: „Aldís, hættu að tala um þetta og gerðu það bara.“ Þá rann upp fyrir mér að auðvitað væri það rétt hjá honum,“ segir Aldís og útkoman voru verk sem Aldís lýsir sem erótískum en ólíkum þó. „Þau eru öll erótísk en mjög misgróf og sum jafnvel meira rómantísk en erótísk.“ 

Hún á von á að sýningin gangi fram af einhverjum. „Það er eins og gengur en það er auðvitað bara allt í lagi og skiljanlegt þar sem að enginn er eins. List er ekki alltaf í stíl við sófann. Sum list er ekki gerð með fagurfræði að leiðarljósi…þessi sýning er svolítið þannig,“ segir Aldís sem sýnir tólf til fjórtán verk í Tónlistarskólanum. Sýningin verður opnuð kl. 15.00 á föstudag og verður opin alla helgina.  

Myndlistarkonan Aldís Gló Gunnarsdóttir
Rómantík og erótík á myndum Aldísar
Á von á því að sumar myndirnar gangi fram af einhverjum