ÍBV karla mætir KA í tólftu umferð Bestu deildarinnar fyrir norðan í dag og hefst leikurinn kl. 16.00. Miðað við frammistöðu ÍBV í síðustu leikjum gæti farið að styttast í fyrsta sigur ÍBV á leiktíðinni. Jafntefli á móti Blikum, sem tróna í efsta sæti deildarinnar í síðustu umferð gefur vonir um betri tíð með blóm í haga hjá Eyjamönnum.

En þeir eru engu að síður í neðsta sæti Bestu deildarinnar með aðeins fimm stig í ellefu leikjum. Þeir hafa fengið 20 mörk á sig, sem er rétt yfir meðallagi í deildinni en skorað aðeins níu mörk og gert fimm jafntefli. Það er ekki málið hvað mörg mörk lið fær á sig, það þarf bara að skora fleiri.

KA er með öflugt lið sem er í fimmta sæti deildarinnar með 18 stig, hafa skorað 16 mörk en aðeins fengið 13 á sig. Það er því við ramman reipi að draga fyrir okkar menn en sigur í dag breytir miklu.

Hermann þjálfari er á réttri leið með liðið. Mynd Sigfús Gunnar.