Hinn 16. júlí eru 395 ár liðin frá því að alsírsk ræningjaskip komu hér til Vestmannaeyja, rændu, brenndu, drápu 36 Vestmannaeyinga og tóku með sér 242 manneskjur héðan til Alsír, í Barbaríið, eins og Íslendingar kölluð Alsír á þeim tíma. Þar beið fólksins þrældómur og ill meðferð. Um 200 íbúar urðu eftir í Vestmannaeyjum, þjakaðir af sorg og missi ástvina sinna. Samfélagið var að miklu leyti lamað í langan tíma eftir þessa hræðilegu blóðtöku.

Sögusetrið 1627 hefur um nokkurt skeið  minnst þessara atburða árlega með mismunandi hætti. Í boði hefur jafnan verið fjölbreytt dagskrá. Haldnar hafa verið sýningar og ráðstefnur, farið hefur verið í Tyrkjagöngur og þar fram eftir götunum. Eyjamenn og gestir þeirra hafa tekið þessum viðburðum afar vel og hafa þeir verið afar vel sóttir.

Nú í ár mun Sögusetrið minnast þessara atburða með svolítið öðrum hætti. Víða um Heimaey eru söguleg skilti fyrir okkur Eyjamenn og ferðafólk sem sækir okkur heim. Sum þessara skilta tengjast Tyrkjaráninu beint en önnur tengjast sögu Vestmannaeyja með öðrum hætti. Þessi skilti eru mörg hver orðin illa farin og óskýr og þess vegna kominn tími til að endurgera þau þannig að þau sómi sé vel og því hlutverki sem þau gegna. Sögusetrið hefur því ákveðið að endurgera þessi skilti og verður strax í dag, 16. júlí, hafist handa með því að setja nýtt skilti við Sængurkonustein. Á næstunni verða svo önnur skilti endurnýjuð víða um  Heimaey.

Sögusetrið 1627 hefur ýmislegt annað á dagskrá sinn þetta árið. Þar ber helst að nefna að hinn 21. okt. í ár eru liðin 110 ár frá fæðingu Alfreðs Washington Þórðarsonar. Hann samdi á sínum tíma fjölda fallegra laga sem sum okkar þekkjum en mörg þeirra eru lítt kunn. Í tilefni af árstíð Alfreðs mun Sögusetrið gefa út hefti með 13 lögum Alfreðs í útsetningu Kittyar Kovács. Útgáfudagskrá verður í  Safnahúsinu hinn 21. okt. nk. og er öllum opin. Þar verður fjallað um tónskáldið og lög hans og nokkur þeirra flutt. Nánar verður fjallað um þessa útgáfudagskrá síðar.

Með bestu kveðjum. F.h. Söguseturs 1627

Ragnar Óskarsson formaður.