„Makrílveiðin hófst hjá okkur um 10. júlí í Smugunni. Skipin okkar, Álsey, Sigurður og Heimaey vinna saman á miðunum, aflinn settur í eitt skip í einu. Heimaey er að landa í Eyjum, um 1000 tonnum. Áður höfðu Sigurður og Álsey landað rúmum 2000 tonnum,“ sagði Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins.

Álsey er á landleið með fullfermi eða, um 1000 tonn. „Það eru um 35 til 40 tíma sigling á miðin. Við erum þá komnir með 4000 tonn af okkar 19.000 tonnum sem við höfum til ráðstöfunar. Það verður pása í makrílvinnslunni í Eyjum vegna Þjóðhátíðarinnar og færist vinnslan til Þórshafnar á meðan. Síðan fer það eftir aflabrögðum og veiðisvæði hvar best verður að landa makrílnum,“ bætti Eyþór við.