„Við í Forvarnarhópnum Bleiki Fíllinn höfum nú sinnt þessu sjálfboðastarfi í tíu ár. Má því telja að þetta sé lengst starfandi hópur á Íslandi sem sinnt hefur slíkri vinnu,“ segir á Facebook-síðu Bleika fílsins sem steig sín fyrstu skref á þjóðhátíð fyrir tíu árum.

„Við hófum störf í afar ólíku landslagi en við sjáum nú. Orðræðan var allt önnur og viðhorf til kynferðisofbeldis voru oftast nær einföld; þagga niður þetta óþægilega mein samfélags okkar.

Slagorð okkar voru því skýr: Það er bleikur fíll í stofunni, vandamál sem allir vita af en enginn vill ræða. Því þarf að breyta.

Vestmannaeyingar og gestir Þjóðhátíðar tóku okkur fagnandi.

Eftir tvær MeToo byltingar hefur vissulega mikið áunnist þó langt sé í land. Við í hópnum erum þó orðin lúin og teljum að nú séu kaflaskil í starfi okkar. Hver sem framtíðin verður viljum við nota tækifærið nú og þakka fyrir ómetanlegan stuðning gegnum árin.

Til Vestmannaeyinga og gesta sem hafa stutt okkur viljum við segja: Þegar þið berið merki hópsins eruð þið að stuðla að vitundarvakningu og umræðu. Ekki hætta því. Þannig eruð þið hluti af lausninni en ekki vandanum.

Þið viljið ekki bleika fíla í ykkar liði, þið viljið að fólk ræði um mikilvægi samþykkis, þið styðjið þolendur, þið viljið ekki stinga hausnum í sandinn, þið viljið stuðla að breytingum.

Takk og aftur takk,“ segir í færslunni.