„Aldrei betra að vera í Reykjavík heldur en akkúrat þessa helgi því að fíflin eru farin til Eyja,“ segir Ásgeir Guðmundsson, stjórnarmaður í Sambandi reykvískra skemmtistaða og stríðnispúki Innipúkans í léttu spjalli á Vísi.is í vikunni. Örugglega ekki illa meint.

Á sama miðli í morgun er fyrirsögnin; Mikið um óspektir og sjö gistu fangageymslu. Ekki í Vestmannaeyjum þar sem allt fór vel fram síðustu nótt. Óspektirnar voru í Reykjavík.

Það er alltaf vont þegar fólk hefur ekki stjórn á sér og virðir ekki almennar umgengnisreglur, sama hvort það er í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum eða í miðbæ Reykjavíkur. En hvaða fólk er það sem í þúsundum tekur stefnuna á Vestmannaeyjar um hverja verlsunarmannahelgi?

Vestmannaeyjabær – framkvstjóri umhv.-og frkv.sviðs

Upp til hópa skemmtilegt fólk sem mætir í Dalinn til að skemmta sér og öðrum. Á aldrinum 18 til 35 ára og er að mæta í þriðja, fjórða, fimmta skiptið ef ekki oftar. Vel útbúið, kann sér hóf og er á allan hátt sjálfum sér og sínum til sóma.

Þjóðhátíð er fjölskylduhátíð í einstakri umgjörð sem Herjólfsdalur er. Innan þessa ramma eru hvítu tjöldin heimamanna, brennan, flugeldasýningin, Brekkusöngurinn og blysin 140 og eitthvað og þúsundir gesta. Allt frá kornabörnum upp í fólk á tíræðisaldri. Áhersla er á öryggi gesta þar sem lögregla, hjálparsveitir, læknar og hjúkrunarfólk leggjast á eitt.

Auðvitað getur eitthvað borið út af en vonum það besta um framhaldið.

Mynd: Addi í London

Ómar Garðarsson.