Konan er meira en sátt við lífið og tilveruna þar sem við sitjum og horfum á beina útsendingu frá skemmtuninni í Herjólfsdal í boði ÍBV og Senu. Reyndar í útlegð í Garðabænum en það er hlýtt og notalegt í húsi dótturinnar sem nýtur lífsins með fjölskyldu og vinum í Dalnum. Við fjarri góðu gamni en það kemur þjóðhátíð eftir þessa. Konan tók reyndar gleði sína yfir kvöldfréttum RÚV og því í góðum gír þegar útsending hófst af Stóra sviðinu í Herjólfsdal.

Lofa skal það sem vel er gert og nú verð ég að taka hatt minn ofan fyrir fréttastofu RÚV. Það var eins og sólin risi úr sæ þegar Eyjakonan Ólöf Ragnarsdóttir birtist í beinni úr Dalnum með sitt blíða bros. Hún og Hólmfríður Dagný gerðu þjóðhátíðinni góð skil í löngu innslagi. Gærkvöldinu með flugeldunum, brekkustuðinu og tjaldfjörinu þar sem Leó Snær fór á kostum. Allt alveg dásamlegt nema að einn skugga bar á sem er kannski undantekningin frá reglunni, að á þjóðhátíð mæti bara gott fólk og skemmtilegt.

Nú hljómar Ragga Gísla í sjónvarpinu, ótrúleg söngkona sem verður betri með hverri þjóðhátíð. Halldór Gunnar og hans menn í Albatros hafa líka þroskast með hverri hátíðinni. Jóhanna Guðrún var þar á undan og Birgitta Haukdal, dásemdar söngkonur sem við þekkjum frá fyrri hátíðum náðu nýjum hæðum eftir þrjú þjóðhátíðarlaus ár. Klara sem Eyjafólk hefur tekið í fóstur, söngfuglinn sem lagði íslensku þjóðina að fótum sér með þjóðhátíðarlaginu í ár, Eyjanótt var dásemdin ein. Hann Elías Orri gerði sér lítið fyrir og söng Eyjanóttina til sigurs í Söngvakeppni barna. Klara, Elías Orri eru að stíga sín fyrstu skref fyrir fullum Dal af fólki og það mun Hebbi Guðmunds gera líka. Risaskref á ferli þeirra þriggja.

Það á líka við um Magnús Kjartan, brekkusöngvara sem tók lagið fyrir tómum Dal í fyrra. Hann mætir á Stóra sviðið með 14.000 til 15.000 manns í Brekkunni. Árni Johnsen sló fyrsta tóninn í Brekkusöng árið 1977, fyrstu þjóðhátíðinni í Dalnum eftir gos og stýrði honum í ein 40 ár með glæsibrag.  Síðan hefur kyndillinn gengið manna á milli og er nú í höndum Magnúsar Kjartans sem á örugglega eftir að standa sig með prýði.

Eftir Brekkusöng verða tendruð 148 blys í Brekkunni, gæsahúðaratriði og síðan verður dansað fram á morgun.

Góð frammistaða RÚV var tilefni þessara skrifa sem eru orðin lengri, og kannski leiðinlegri en lagt var upp með. Þetta er þriðji eða fjórði pistillinn úr útlegðinni og vonandi hafa einhverjir haft af þeim einhverja skemmtun. Alla vega hafa þau fært okkur hjón nær ykkur sem nú eruð á þjóðhátíð.

Að lokum vil ég benda fréttastofu RÚV á að margt jákvætt gerist í Eyjum sem á erindi við þjóðina. Ef ykkur vantar hugmyndir er síminn hjá mér 695 2878.

Með von um dásamlega nótt í Dalnum. Ómar Garðarsson.

Myndirnar tók Addi í London í gær.

Es. Á meðan þetta er skrifað hefur hvert atriðið öðru betra borið fyrir augu og eyru. Til hamingju öll. Þið eruð frábær.