Nú þegar Þjóðhátíðinni er lokið er bara ein spurning sem brennur á vörum yngri kynslóðarinnar: hvenær koma eiginlega pysjurnar í bæinn?

Í fyrra voru pysjurnar þegar mættar á þessum tíma árs og við höfðum því samband við Erp Snæ Hansen hjá Náttúrustofu Suðurlands, hann er líklegasti maðurinn til að vita eitthvað um fyrirhugaðan lendingartíma hjá þessum vinsælustu ungum landsins.

Hann segir að von sé á fyrstu pysjunum um eða uppúr miðjum ágúst. Vöxtur pysjanna hefur eitthvað dregist á langinn og um það bil helmingur allra unga drapst fyrr í sumar. Þetta er vegna þess að lundinn fer langt eða lengi eftir fæðunni og þá minnkar burðurinn í ungann og þeir ýmist drepast eða foreldrarnir yfirgefa eggin. Þetta gerðist síðast 2018.

Fljótlega verður pysjuetirlitið formlega sett af stað og innan skamms verður hægt að skrá pysjur á lundi.is.

Í fyrra voru skráðar skráðar 4.612 pysjur í pysjueftirlitið, þar af voru 2620 pysjur vigtaðar. Meðalþyngdin hefur aldrei verið hærri frá upphafi mælinga eða 317 grömm. Tímabilið í fyrra var líka óvenjulegt fyrir margar sakir. Í fyrsta lagi byrjaði það fyrr en oft áður og í öðru lagi stóð það mun lengur yfir, eða í næstum 2 mánuði. Toppnum var þó náð óvenju snemma eða 13. ágúst.