Eldgos hófst á Reykjanesi á öðrum tímanum í dag, en mbl.is greindi fyrst frá fréttunum, enda sáust eldglæringar vel í vefmyndavélum þeirra. Gosið er í vest­an­verðum Mera­döl­um, um 1,5 km norður af Stóra-Hrút. En margir kannast við Stóra-Hrút, því hann var mikið genginn af forvitnum göngumönnum þegar gaus í Fagradalsfjalli, því gosi lauk í september síðastliðnum.

Samkvæmt heimildum Eyjafrétta eru forvitnir gosáhugamenn og göngugarpar þegar farin að skipuleggja göngu á Reykjanesið til að sjá nýjasta náttúruundrið mydast.

Göngugarpar skoða eldglæringar á Reykjanesi. Mynd mbl.is: Hákon Pálsson

Fólk almennt rólegt
Eyjafréttir fengu Smára Jökul Jónsson, Vestmannaeying og íbúa í Grindavík, til að lýsa sinni upplifun af þessum jarðhræringum og eldglæringum á nesinu.

Vestmannaeyjabær – framkvstjóri umhv.-og frkv.sviðs

Það var rólegt yfir Smára þegar blaðamaður náði í hann, enda stendur sumarfrí sem hæst hjá fjölskyldunni sem eru nýfarin af Eyjunni fögru eftir góða Þjóhátíðardvöl.

„Ég held að fólk sé almennt frekar rólegt þó gosið sé svona nálægt. Svo á eftir að koma í ljós hvernig verður með hraunrennsli og hvort það ógni einhverjum innviðum en svona fyrstu viðbrögð eru held ég að maður sé feginn að gosið er á svipuðum slóðum og síðast.

Í Dalnum þegar sá stóri kom
Mér persónulega fannst jarðskjálftarnir erfiðir og leið ekki vel með þá, þannig að nú þegar byrjað er að gjósa býst ég við að þeim ljúki eins og gerðist síðast. Ég var sem betur fer að skemmta mér i Dalnum þegar stóri skjálftinn kom á laugardag.“

Smári Jökull og Sigrún voru í Dalnum þegar stóri skjálftinn reið yfir í Grindavík síðustu helgi.

Eru íbúar í Grindavík með einhvern sérstakan viðbúnað heima við? 
„Ég held að fólk geri ráðstafanir varðandi skjálftana, sjái til þess að stórir hlutir á heimilum geti ekki valdið skaða. Svo hefur auðvitað verið mælt með að fólk sé tilbúið að yfirgefa heimilin sín með stuttum fyrirvara en það var kannski mest á meðan óvissa var hvar gosið yrði. Síðan þýðir, held ég, lítið að spá í hvað mun gerast á næstu árum, ég held að við séum með það mikið af hæfu vísindafólki að við munum alltaf fá ákveðinn fyrirvara ef fleiri gos verða.“

Eldgosið sést úr gluggunum heima
Smári starfar sem grunnskólakennari í Grindavík og því ekki úr vegi að spyrja hvernig honum finnst þessar náttúruhamfarir leggjast í yngri kynslóðina í bænum.
„Ég held að það sé misjafnt hvernig unga fólkið tekur þessu. Auðvitað finnst mörgum þetta spennandi en að sjálfsögðu líka ógnandi – þetta er jú eldgos og við sjáum það út um gluggann á húsunum okkar. Mörg börn fóru að skoða gosið síðast sem ég held að hafi hjálpað til. Mín upplifun er að fólki finnist skjálftarnir erfiðari en sjálft gosið,“ segir Smári að lokum og við óskum honum góðrar ferðar áfram í sumarfríinu.

Nýtt eldgos er hafið á Reykjanesi. Mynd mbl.is: Arnþór Birkisson.