Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á sér merka sögu í Vestmannaeyjum. Starfsemi kirkjunnar á Íslandi hófst 1850, einmitt í Eyjum, er tveir Íslendingar, sem voru í námi í Danmörku, kynntust kirkjunni þar ytra og létu skírast. Er þeir sneru aftur heim að námi loknu, hófu þeir trúboð í Vestmannaeyjum. Á næstu áratugum gengu eitthvað um 400 manns í kirkjuna, en flestir fluttu þeir til Vesturheims, þeir fyrstu 1854. Ekki eru til óyggjandi upplýsingar um hvenær síðasta skírnin fór fram í Vestmannaeyjum, en það gæti hafa verið rétt fyrir aldamótin 1900.

 

Nú brá svo við að Chris Burkard frá Bandaríkjunum ákvað að koma til Íslands og skíra yngri son sinn í Vestmannaeyjum eftir um 130 ára skírnarhlé. Móðirin er af íslenskum ættum. 6. ágúst 2022 fór 19 manna hópur til Vestmannaeyja. Upphaflega var ætlað að skíra soninn í gamla Mormónapollinum, en sökum golfmóts var ákveðið að fara í Klaufina og skíra þar. Sólin birtist skyndilega fram úr skýjum og yljaði alla viðstadda. Skírnin fór fram á milli tveggja kletta og gekk að óskum. Athöfnin öll var hin yndislegasta. Skírnir á vegum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hafa því aftur hafist í Vestmannaeyjum. Vonandi þurfum við ekki að bíða í önnur 130 ár eftir næstu skírn.

Chris að skíra Forrest. Álsey í baksýn.
Chris Burkard og fjölskylda. Sonurinn sem skírðist heitir Forrest og heldur á Mormónsbók.