Í morgun sökk þjónustubáturinn Bliki VE í Klettsvík í Vestmannaeyjum. Enginn var um borð og ekki er vitað um orsakir. Olíumengun er að sögn lítil sem engin og er búið að gera viðeigandi ráðstafanir til hindra mengun ef olía fer að leka úr bátnum.

Bliki VE er í eigu Gelp-kafaraþjónustu sem Gunnlaugur Erlendsson kafari á. Hefur báturinn m.a. verið notaður við endurbætur á kví fyrir mjaldrana Litlu hvít og Litlu grá. Stóð til að setja þær út á morgun samkvæmt heimildum Eyjafrétta.

„Við vitum ennþá ekki  hvað gerðist og það verður ekki fyrr en á morgun sem við komumst niður að bátnum sem liggur á botni Klettsvíkur,“ sagði Arnoddur Erlendssonar kafari og bróðir Gunnlaugs. „Sáralítið er að sjá af olíu á sjónum og við erum búnir að setja upp varnargirðingu sem á að koma í veg fyrir mengunarslys. Meira er ekki að segja á þessari stundu.“

Bliki VE tvíbytna, smíðaður 2001, tæplega tíu metra langur og rétt tæp 14 brúttótonn.

Mikið er í húfi að vel takist til því nú fer m.a. pysjutíminn í hönd.

Mynd: Á morgun var ætlunin að setja mjaldrana út í kvínna í Klettsvík.