Ágúst Halldórsson og skipsfélagar hans á Heimaey sáu ekki fyrir sér að komast á Þjóðhátíð þetta árið. En mokveiði í Smugunni breytti öllu. Ágúst Halldórsson, einn áhafnarmeðlima segir frá:

Það var sólríkan laugardagsmorgun, nánar tiltekið tuttugasta og þriðja júlí sem löndun k„láraðist á makríl úr  Heimaey VE. Um þúsund tonn úr Smuginni komin inn í frystihús og eitthvað í bræðslu Ísfélagsins. Við sigldum út Leiðina í dásamlegu veðri og áhafnarmeðlimir svona að sætta sig við það að við værum í þjóðhátíðartúrnum.

Siglingin í Smuguna gekk eins og í sögu. Ekki gáraði á kinnung allar þær sjö hundruð sjómílurnar sem skrúfan fékk að ýta okkur. Sigurður VE var aðeins á undan okkur og var að fiska og heldur betur í stuði því þeir voru að verða búnir að fá í sig og sendir til löndunar á Þórhöfn á Langanesi stuttu eftir að við komum á miðin. 

Við vorum nú ekki að búast við miklu en höfðum bjartsýnina að vopni. Grímseyingurinn Rúnar Sigfússon sem er skipstjóri á móti Ólafi Einarssyni var heldur betur í stuði og ætlaði heldur betur að sanna sig í fyrsta túr með skipið. Í fyrsta holi dældum við hátt í tvö hundruð tonnum og þá byrjaði blóðbaðið. Hvert glæsilega halið á fætur öðru og söng í fiskidælunni á meðan hún kom spriklandi makrílnum í kaldar lestarnar á Heimaey. 

Þrjátíu tímum síðar vorum við orðnir fullir, eða skipið öllu heldur. Ekki við. Menn fóru að reikna út hvenær við yrðum í landi á Þórshöfn. Sáust augu manna glennast upp og ennin krumpuðust eins og gömul Chesterfield sófasett þegar síminn sýndi að við yrðum í landi föstudagsmorgun og spenningur fór að greinast hjá sumum í áhöfninni. 

Ókyrrð gerir vart við sig 

Eftir að við vorum búnir að þrífa á landstíminu og sólahringur í land fórum við að ókyrrast. Ákveðið var að hafa samband við útgerðarstjórann Eyþór Harðarsson að fá leyfi fyrir smá skreppi til Vestmannaeyja á meðan verið var að landa. Var mikill skilningur í Eyþóri og bað hann okkur um að binda skipið vel og hafa löndunina sem þægilegasta fyrir þá þrjá úr áhöfninni sem ætluðu að vera eftir. Síðan óskaði Eyþór okkur góðrar ferðar og hlakkaði til að hitta okkur í Dalnum. 

Þá skein gleði úr hverju andliti þegar menn vissu að við værum að fara á Þjóðhátíð. Hringdu menn heim og sögðu sínum ektakonum frá því að þeir væru að koma og einn og einn fór að redda sér miða í Dalinn. Nema ég, undirritaður. Því ég sel aldrei Þjóðátíðarmiðann minn. Tek alltaf sénsinn á að komast í land. Stundum heppnast það og stundum ekki.  

Gátu lítið sofið fyrir spenningi 

En um kvöldið þegar voru um sjö átta tímar í land ætluðu menn að koma sér í koju til að vera úthvíldir fyrir ferðalagið en voru flestir svo spenntir að þeir varla náðu að sofa. Svo þegar ræst var klukkan fimm um morginn rétt áður en í land var komið voru menn svo krumpaðir í framan að erfitt var að greina hver var hver. 

Eftir einn kaffibolla og spjall komum við í land á Þórshöfn. Skipið bundið rækilega fyrir lægðina sem var á leiðinni yfir Verslunarmannahelgina á Þórshöfn og náð í tvo bílaleigubíla. Sem var aðeins meira vesen en við ætluðum okkur en tókst að fá þá klukkan sjö um morguninn. Þá var hópnum skipt í sitthvorn bílinn og brunað af stað. Þetta voru ekki nema einhverjir 800 km sem þurfti að fara.
Þar sem ég hafði misst bílprófið á sömu leið fyrir tíu árum síðan á föstudeginum á Þjóðhátíðinni komandi frá Þórshöfn baðst ég undan því að keyra og fékk það í gegn.
Bjarni Óskarsson klappaði mér á öxlina og sagði: „Ég sé um þetta Gústi minn“, og þakkaði ég honum kærlega fyrir.  

Til að gera langa sögu stutta voru báðir bílarnir komnir í Landeyjahöfn fyrir klukkan þrjú og alveg ótrúlegt hvað þessir kílómetrar voru fljótir að líða. Komumst við um borð þökk sé frábærri áhöfn á Herjólfi. Þar má helst nefna þá fyrrum sjómenn og félaga okkar Jóa Ben og Pétur Eyjólfsson. 

Hefði labbað 

Þegar Herjólfur lagðist að bryggju þá hlupu allir í sitthvora áttina til að koma sér í Dalinn í kökur og auðvitað til að hitta fjölskyldur sínar. Ég fór í bíl með frænda mínum Eiríki Arnórssyni sem hafði líka ferðast með okkur frá Þórshöfn. Rétt áður en bíllinn stoppar við Dalinn spyr ég Eirík hvað planið sé næstu tvo daga. Þá svarar Eiríkur: „Það átti nú að vera eitthvað húllumhæ en við hjónin erum víst að fara að passa fyrsta barnabarnið okkar svo krakkarnir komist eitthvað í Brekkuna. Hvað gerir maður ekki fyrir þessa krakka“.
„Já auðvitað“, svaraði ég, brosti og gekk út úr bílnum áleiðis í Dalinn. 

Sólin skein af hverju andliti sem ég sá, og á hvert andlit þennan bjarta föstudag. Dalurinn skartaði sínu fegusta og tók okkur opnum örmum og dekraði við okkur í þessa tvo daga í hlýjum faðmi fjölskyldunnar.  

Á sunnudeginum sigldum við svo í hádeginu aftur upp á land. Allir hressir og sáttir. Keyrslan heim á Þórshöfn tók töluvert lengri tíma. Þrátt fyrir sama kílómetrafjölda. Einhverjir dottuðu í bílunum.

Einhverntímann á leiðinni horfði ég út um gluggann á bílnum, virti fyrir mér fallegt landslagið hverfa ofan í austan þokuna með smá bros á kinn og hugsaði til síðustu tveggja sólahringa með gleði í hjarta og vílaði ekki fyrir mér 1600 km ferðalag á bíl fyrir tvo daga á Þjóðhátíð og hugsaði: „Ég hefði labbað þessa kílómetra ef þess hafði þurft“. 

Ágúst Halldórsson. 

Á myndinni eru áhafnarmeðlimir komnir aftur í Smuguna, endurnærðir eftir tvo daga á Þjóðhátíð. F.v. Eiríkur Arnórsson, Sigþór Friðriksson, Sigurður Jóhann Atlason, Sigurður Einarsson, Bjarni Óskarsson, Friðrik Sigurðsson og Ágúst Halldórsson.